Innlent

Brást við lögheimilisflutningum til Reykjavíkur með því að flytja fólk frá höfuðborginni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ísak Einar Rúnarsson (t.v.) og Ingvar Smári Birgisson (t.h.) keppast um að verða næsti formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa báðir starfað á Morgunblaðinu líkt og formaður SUS, Laufey Rún Ketilsdóttir.
Ísak Einar Rúnarsson (t.v.) og Ingvar Smári Birgisson (t.h.) keppast um að verða næsti formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa báðir starfað á Morgunblaðinu líkt og formaður SUS, Laufey Rún Ketilsdóttir.
Frambjóðendur til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna eru mættir austur á firði þar sem 44. sambandsþing SUS verður sett síðdegis. Heitt er í kolunum fyrir formannskosninguna á sunnudaginn þar sem Ísak Einar Rúnarsson og Ingvar Smári Birgisson berjast um embætti formanns.

Harðar deilur hafa verið á milli frambjóðendanna sem má rekja til vals stjórnar Heimdalls á þeim 263 fulltrúum félagsins sem fá atkvæðisrétt á þinginu um helgina. Á sjötta hundrað manns sóttu um þátttökurétt á þinginu hjá Heimdalli sem er langsamlega stærsta félag ungra sjálfstæðismanna á landinu.



Heilmiklir lögheimilisflutningar hafa verið til Reykjavíkur undanfarnar vikur
 þar sem stuðningsmenn Ísaks Einars hafa reynt að tryggja sér sæti á þinginu í gegnum Heimdall, og hafa fengið að sögn Ingvars Smára. Hann segist fyrir vikið hafa þurft að flytja lögheimili stuðningsmanna sinna í Reykjavík í önnur sveitarfélög til að reyna að tryggja þeim pláss á þinginu.

Af 550 sætum á þinginu um helgina hefur Heimdallur 263 eða tæplega helming. Önnur félög eru að sögn formanns SUS með um 20-30 sæti á þinginu.


Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á sæti í miðstjórn auk annarra í forystu flokksins.vísir/ernir
Málið fyrir miðstjórn

Ingvar Smári hefur sakað stjórn Heimdallar um að ganga erinda Ísaks Einars. Vísaði hann meðal annars til þess að fjölmargir trúnaðarmenn til margra ára í flokknum og yfirlýstir stuðningsmenn hans hafi ekki fengið sæti á þinginu. 

Kvartaði hann til miðstjórnar, æðsta valds flokksins, sem ályktaði á fundi sínum í síðustu viku að aðildarfélög SUS ættu að endurskoða val um fulltrúa og starfa eftir góðum félagsanda. 

„Það er mat miðstjórnar að þegar í hlut eiga fyrrverandi trúnaðarmenn, sem formenn og varaformenn sérsambanda, eftir atvikum stjórnarmenn eða aðrir trúnaðarmenn, sem lýst hafa áhuga á þátttöku á sambandsþingi, ættu aðildarfélög að greiða fyrir þátttöku þeirra á sambandsþingum,“ segir í bréfi miðstjórnar til aðildarfélagana.

Formaður Heimdallar brást við bréfinu og sagði stjórnina myndu bregðast við gagnrýninni.

Friðrik Þór Gunnarsson, formaður Heimdallar, og Elísabet Inga Sigurðardóttir, varaformaður. Friðrik Þór hefur ekki svarað símtölum fréttastofum í gær og í dag.Mynd/Aðsend
Lögðu til átta breytingar

„Stjórn Heimdallar mun nú skoða hvort eitthvað sé hægt að aðhafast í því tiltekna máli,“ sagði formaðurinn Friðrik Þór Gunnarsson í samtali við RÚV. Í kjölfarið sendi Heimdallur frá sér yfirlýsingu þar sem formaðurinn Friðrik Þór sagði að ákveðið hefði verið að skila nýjum lista þeirra 263 sem fá atkvæði til SUS. 

Ísak Rúnarsson sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna málsins og kom inn á val stjórnar Heimdallar og breytingatillöguna.

„Eftir að í ljós kom að einhverjir af núverandi trúnaðarmönnum flokksins fengu ekki sæti á þingið, t.a.m. Jóhannes Stefánsson varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi, tók stjórn Heimdallar listann til endurskoðunar og lagði til við stjórn SUS að Jóhannesi og fleirum yrði úthlutað sæti. Þeirri tillögu hafnaði stjórn SUS á fundi fyrr í vikunni,“ sagði Ísak.

En hvers vegna hafnaði SUS tillögunni? Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er formaður SUS. 

Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður SUS og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.SUS
Efast um vilja til að fara að ályktun miðstjórnar

Laufey Rún segir stjórn Heimdallar vissulega hafa skilað inn tillögu að breyttum lista á mánudag, fyrir klukkan klukkan 17. Lögum samkvæmt þurfi aðildarfélög SUS hins vegar að boða til félagafundar þegar breyta eigi listum. 

„Þetta er mjög mikilvægur varnagli fyrir félagsmenn,“ segir Laufey. Ekki þurfi að boða til þess fundar með neinum fyrirvara. Stjórn Heimdallar hafi haft fimm daga til að halda fundinn.

„Það var ekkert sem hamlaði þeim til að halda þennan félagafund. Þau gáfu engar aðrar skýringar en að þau hefðu ekki gert það,“ segir Laufey. Stjórn Heimdallar hafi einfaldlega breytt listanum án allrar aðkomu félagsmanna.

Laufey segir að stjórn SUS hafi með engu móti getað gert undanþágu á skýrum lögum SUS sem snúi að mikilvægum þátttökurétti félagsmanna. Sú undanþága hefði getað gert hverjum félagsmanni í Heimdalli kleift að kæra niðurstöðu þingsins vegna þess að lögum SUS hafi ekki verið fylgt.

Stjórn Heimdallar hafi sett saman upphaflega listann yfir þá 263 sem hafi fengið atkvæðisrétt. 

„Heimdallur kaus að fara ekki að lögum og stjórn SUS gat ekki við það unað,“ segir Laufey. Bendir hún á að af þeim tugum trúnaðarmanna sem miðstjórn hvatti til að fengju sæti hafi stjórn Heimdalls gert tillögu að átta breytingum frá upphaflegum lista.

„Maður veltir fyrir sér hversu mikill vilji hafi raunverulega verið til að fara að ályktun miðstjórnar.“

Skoðun hennar á því hver teljist betur til þess fallinn að leiða SUS komi ekki málinu við. 

„Stjórn SUS er ekki til í að fara á svig við lög og reglur,“ segir Laufey. Um þetta fór fram ítarleg umræða í stjórn SUS sem formaður Heimdallar tók virkan þátt í. Taldi stjórn sér að engu tækt að fara gegn skýrum lögum sambandsins.

Rétt er að taka fram að blaðamaður hefur ítrekað reynt að ná tali af Friðriki Þór Gunnarssyni, formanni Heimdalls í gær og í dag. Hann hefur ekki svarað í símann.



Að neðan má heyra viðtal við frambjóðendurna í Harmageddon áður en allt fór í háaloft.


Engin lagabreytingartillaga

Athygli vekur að núverandi fyrirkomulag er varðar val fulltrúa á sambandsþingið hefur verið gagnrýnt af bæði Friðriki Þór, formanni Heimdalls, og Ísaki. Ísak hefur sagt kosningakerfið gamalt og skoða þurfi breytingar á því.

„Þetta er gamalt kosningakerfi. Mér finnst mjög mikilvægt að stjórnirnar hagi sínu vali á eigin lista. Ég hef sagt að það sé tímabært að endurskoða kosningakerfið. Við búum í breyttum heimi með breyttri tækni. Það hafa sögulega oft verið deilur um hvernig fulltrúar hafa verið valdir. Menn eru oft ósáttir en það fylgir því í pólitík að fólk þarf að taka afstöðu,“ sagði Ísak við Vísi á dögunum.

Undir þetta tók Friðrik í viðtali við RÚV og sagðist vilja færa valdið frá aðildarfélögunum.

„„Það er ólíðandi staða að þurfa að gera upp á milli nýliðunar og þeirra sem voru virkir í starfinu áður fyrr, en hafa ekki sést um langa hríð. Ég er ekki í minnsta vafa um að það yrði farsælla fyrir bæði ungliðahreyfinguna og flokkinn ef hægt væri að opna þingið.“

Til að gera breytingar á lögum SUS þarf að skila inn breytingartillögu tíu dögum fyrir þing. Engin lagabreytingartillaga hefur borist er þetta varðar að sögn formanns SUS. Það þýðir að hana verður næst hægt að leggja fyrir þingið eftir tvö ár sem kæmi þá til framkvæmda fyrir þingið 2021.

Yngstu stuðningsmenn fari í áfengislausa rútu

Vísir fjallaði í gær um skipulagða skemmtiferð stuðningsmanna Ísaks til Eskifjarðar með viðkomu á Sauðárkróki þar sem á að skemmta sér í kvöld. Ferðlöngum hefur verið tilgreint að allt sé í boði, þ.e. rútuferðin, gisting og áfengi. 

Fjölmargir stuðningsmenn Ísaks eru úr Menntaskólanum við Sund sem hefur þó tekið skýrt fram að ferðin sé hvorki á vegum skólans né nemendafélagsins. Menntaskólanemendur eru flestir á aldrinum 16-19 og hafa því ekki aldur til að kaupa áfengi. Þá má ekki gefa sama aldurshópi áfengi.

Ísak Einar Rúnarsson.Aðsent
Ísak var spurður út í þetta á Vísi í gær en bað um að fá að svara skriflega. Eftir birtingu fréttar Vísis um ferðina sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann kom inn á þetta.

„…framboð mitt hefur gætt þess í hvívetna að halda áfengi frá þeim sem hafa ekki aldur til að neyta þess. Þeir sem yngstir eru munu þess vegna fara í sér rútu.“

Þá sagði hann rangt sem kom fram í frétt Vísis um að reiknað væri með því að rútan kæmi á Eskifjörð á sunnudag. Hún kæmi á Eskifjörð á laugardeginum svo stuðningsmennirnir gætu tekið þátt í þingstörfum.

Þá sagðist hann hafa heyrt af því að framboð Ingvars Smára ætlaði að fljúga stuðningsmönnum sínum til Eskifjarðar á sunnudeginum. Ingvar Smári gengst við því.

Ingvar Smári Birgisson.
Leigir flugvél fyrir fólkið sitt

„Það kemur flugvél á mínum vegum á sunnudeginum,“ segir Ingvar Smári. Aðspurður hve margir verði í vélinni segist hann ekki vilja tjá sig um það enda kosningabaráttan í hörkugangi.

Ástæðan fyrir leiguflugvélinni væri sú að það væri hreinilega ódýrara en að fólk flygi sjálft austur. Þá væri allur gangur á því hvort fólk fengi ferðina ókeypis eða þyrfti að greiða fyrir hana.

„Einhverjir fá frítt, sumir greiða eitthvað og aðrir greiða fullt verð.“

Ljóst er að mjög margir stuðningsmenn Ísaks Rúnars hafa flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur til að geta sótt um þátttöku á þingið í gegnum Heimdall. Ingvar Smári segir engan stuðningsmann sinn hafa flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur.

„Ástæðan er sú að stuðningsmenn mínir fengu engin sæti hjá Heimdalli. Það var fyrirséð. Við neyddumst til að færa fólk frá Reykjavík til annarra sveitarfélaga til að finna þeim pláss á þinginu,“ segir Ingvar. Það sé ömurleg staðreynd en hafi verið knúin af þeirri ástæðu að stuðningsmenn hans fengu ekki sæti hjá stjórn Heimdalls.

Margir fá frítt á þingið

Aðgangur að þinginu um helgina kostar tvö þúsund krónur. Laufey Rún segir kostnaði haldið í lágmarki enda sé um langt og dýrt ferðalag að ræða fyrir þátttakendur. Verðið sé í takti við undanfarin ár. Ísak býður stuðningsönnum sínum, sem fara í rútuna í dag, á þingið, þ.e. greiðir fyrir þá þátttökugjaldið. 

Ingvar Smári segir að það sé almennt séð ekki tilfellið hjá honum.

„Nei, ég geri það almennt séð ekki. Það er þannig í einhverjum tilfellum þó.“

Laufey fagnar því að þingið fari fram á Eskifirði.

„Þingin eru alltaf úti á landi enda eru þetta landssamtök,“ segir Laufey.

„Bróðurpartur okkar viðburða yfir árið eru í Reykjavík þannig að sambandsþingin eru alltaf úti á landi,“ segir Laufey.

Þau hafa undanfarin ár meðal annars verið haldin á Akureyri, Vestmannaeyjum og Ísafirði. Á þingunum fari fram mikið málefnastarf þar sem fólk skiptist á hugmyndum og móti stefnu sambandsins. Ráðherrar flokksins mæta á þingið á laugardaginn og þar gefst gestum kostur á að hitta kjörna fulltrúa flokksins og ræða við þá.

„Það er orðið mjög langt síðan við héldum þingið á Austfjörðum. Félag ungra sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð hefur óskað eftir þessu þingi í mörg ár, að það komi í bæinn og þess vegna ákváðum við að verða við því í ár.“


Tengdar fréttir

Leyndardómsfullir fólksflutningar í aðdraganda formannskosninga

Sjö ungir menn, sem allir bjuggu áður í öðrum bæjarfélögum, hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73 í Reykjavík í aðdraganda sambandsþings Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, sem haldið verður helgina 8.-10. september.

Fimm aðildarfélög SUS hyggjast segja sig úr sambandinu

Ingvar Smári, sem býður sig fram til formanns segir að "stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálf­stæðismanna í Reykjavík, sem leynt og ljóst styður framboð Ísaks Rúnarssonar, til formennsku gætti þess við val á lista sinn að útiloka þá frá þinginu sem ekki eru yfirlýstir stuðningsmenn hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×