Íslenski boltinn

Flóki og Crawford afgreiddu Blika í Fífunni | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslandsmeistarar FH eru komnir í undanúrslit Lengjubikars karla í fótbolta eftir 3-0 sigur á Breiðabliki í átta liða úrslitunum í kvöld en leikurinn fór fram í Fífunni í Kópavogi.

Robbie Crawford, nýr skoskur leikmaður FH, skoraði fyrsta mark meistarana á 19. mínútu en það gerði hann með góðu skoti eftir sendingu Kristjáns Flóka Finnbogasonar. Þetta var fyrsti leikur Crawford fyrir FH.

Staðan var 1-0 í hálfleik en á tveggja mínútna kafla í seinni hálfleik gerði FH út um leikinn. Kristján Flóki, sem hefur verið afskaplega góður á undirbúningstímabilinu, skoraði á 71. og 73. mínútu og tryggði FH 3-0 sigur.

Flóki er búinn að skora fimm mörk í Lengjubikarnum en hann raðaði einnig inn mörkum í Fótbolti.net-mótinu sem FH vann eftir úrslitaleik á móti Stjörnunni.

FH-ingar mæta KR í undanúrslitunum á fimmtudaginn en KR vann öruggan sigur á Þór, 4-1, í gær. Mörkin úr þeim leik má sjá hér.

Í hinum undanúrslitaleiknum eigast við nýliðar KA og Grindavíkur en undanúrslitin fara fram á fimmtudaginn.

Mörkin úr leik Breiðabliks og FH má sjá í spilaranum hér að ofan en mörkin úr leik KR og Þórs hér að neðan.


Tengdar fréttir

KA gekk frá Selfyssingum í seinni hálfleik

KA, sem verður nýliði í Pepsi-deildinni í sumar, komst auðveldlega í undanúrslit Lengjubikars karla í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Inkasso-deildarlið Selfoss, 4-1, í Boganum fyrir norðan.

KR í undanúrslit Lengjubikarsins

KR vann þægilegan sigur á Þór, 4-1, í 8-liða úrslita Lengjubikarsins í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram í Frostaskjólinu vestur í bær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×