Erlent

Hefja formlega rannsókn á Fillon vegna gruns um spillingu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Francois Fillon.
Francois Fillon. vísir/getty
Franski forsetaframbjóðandinn Francois Fillon sætir nú formlegri rannsókn af hálfu franskra yfirvalda vegna gruns um spillingu en hann er sakaður um að hafa borgað meðlimum úr fjölskyldu sinni þúsundir evra fyrir störf sem þeir inntu aldrei af hendi. Saksóknarar kynntu það í dag að formleg rannsókn væri hafin.

Er um að ræða opinbert fé en Fillon á meðal annars að hafa greitt eiginkonu sinni Penelope fyrir að vera aðstoðarmaður sinn þegar hann sat á franska þinginu, starf sem Penelope sinnti í raun ekki.

Fillon býður sig fram til forseta fyrir hönd Repúblikana. Hann hefur staðfastlega neitað ásökunum um að hafa misnotað opinbert fé en hefur þó sagt að hann myndi draga framboð sitt til baka ef hann myndi sæta formlegri rannsókn.

Ekki er langt síðan Fillon var talinn líklegastur til að bera sigur úr bítum í frönsku forsetakosningunum í vor en samkvæmt nýjustu könnunum eru njóta mótframbjóðendur hans, þau Marine Le Pen og Emmanuel Macron, nú meira fylgis.

 

Auk fjármuna sem Fillon á að hafa láta runnið til konu sinnar undir því yfirskini að hún hafi verið í vinnu hjá honum er hann einnig sakaður um að hafa látið börnin sín tvö leysa af hendi lögfræðileg verkefni og greitt þeim fyrir en hvorugt þeirra var lögfræðingur á þeim tíma sem þau unnu fyrir pabba sinn.

Fillon hefur enn ekki stigið til hliðar sem forsetaframbjóðandi Repúblikana og heldur fram sakleysi sínu, eins og áður segir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×