Lífið

Guðni skiptir buffinu út fyrir mislita sokka

Bjarki Ármannsson skrifar
Alþjóðlegi Downs-dagurinn er á þriðjudaginn og Forseti Íslands sýnir samstöðu.
Alþjóðlegi Downs-dagurinn er á þriðjudaginn og Forseti Íslands sýnir samstöðu. Mynd/Downs félagið
Alþjóðlegi Downs-dagurinn er nú á þriðjudaginn, en þann dag hefur þótt til siðs að ganga í mislitum sokkum undanfarin ár og sýna þannig samstöðu með fólki með Downs-heilkennið um heim allan.

Downs félagið á Íslandi hvetur Íslendinga til þess að taka þátt í færslu á Facebook-síðu félagsins í dag og birtir af því tilefni mynd af spenntum þátttakanda – sjálfum Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

„Hann er með puttann á púlsinum,“ segir Þórdís Ingadóttir, formaður Downs félagsins um forsetann. Hún segir það æðislegt að fá sjálfan þjóðhöfðingjann til að taka þátt í að fagna margbreytileikanum.

Klæðaburður Guðna Th. hefur áður vakið athygli, til að mynda þegar hann deildi mynd af sér með buff á höfði við afhjúpun á upplýsingaskilti á Bessastöðum. Þótti þá mörgum stíll forsetans hálfbarnalegur en það kom á daginn að þá, líkt og nú, var flíkin valin með gott málefni í huga; buffið var framleitt og selt af Alzheimer-samtökunum.

Það er í það minnsta morgunljóst að nýr forseti er óhræddur við að bregða út af vananum í klæðaburði, sérstaklega ef hann getur vakið athygli á góðum málstað í leiðinni.

Downs félagið hvetur fólk til þess að deila myndum af sér á Instagram í mislitum sokkum með merkjunum #downsfelag og #downsdagurinn. Myndirnar munu birtast á stórum skjá í veislu félagsins í Laugardal á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×