Innlent

Eingöngu fjórðungur kandidata karlmenn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Á síðustu tuttugu árum hafa konur verið í meirihluta nemenda Háskóla Íslands. Og síðustu árin hafa tveir af hverjum þremur nemendum háskólans verið konur.Árið 2001 voru karlar 41 prósent brautskráðra við háskólann. Árið 2006 voru þeir 34 prósent og á síðasta ári voru þeir 31 prósent. Af þeim 455 kandidötum sem tóku við brautskráningarskirteini sínu við Háskóla Íslands í dag voru eingöngu 126 karlmenn eða tæplega 28 prósent kandidata.„Þetta er áhyggjuefni, að piltar séu ekki að koma í eins miklum mæli og við myndum vilja sjá þá inn í háskólann og það þarf snúa því við en það tekur tíma,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.vísir/pjetur
Jón Atli segir vandann ekki snúast um brottfall karlnemenda úr háskólanum. Piltar komi ekki í gegnum skólakerfið inn í háskólann og það þurfi að skoða í þjóðfélagslegu samhengi.„Svo má líta á þetta með launin. Hvers vegna koma piltar ekki inn í háskóla? Detta þeir út úr framhaldsskóla? Sjá þeir ekki gildi þess að mennta sig? Því að virði menntunarinnar kemur ekki fram í launaumslaginu? Þetta er eitt af því sem þarf að skoða - og það eru sérfræðingar nú þegar að skoða þetta," segir hann.Konur eru í meirihluta í öllum deildum skólans fyrir utan á verkfræði- og náttúruvísindasviði.En af hverju er æskilegt eða mikilvægt að kynjahlutfallið sé jafnt? „Það skiptir máli að þjóðfélagið sé þannig að það sé ekki misskipting kynja á vinnumarkaði. Að það sé ekki kynjahalli á vinnumarkaði í ákveðnum greinum. Að karlar og konur geti sinnt sömu greinum. Og það á sérstaklega við um bóklegar greinar eins og í háskóla," segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.