Fótbolti

Söguleg frumraun Alberts: Fjórði ættliðurinn sem spilar A-landsleik fyrir Ísland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Guðmundsson er kannski framtíð íslenska landsliðsins.
Albert Guðmundsson er kannski framtíð íslenska landsliðsins. vísir/getty

Albert Guðmundsson, 19 ára gamall leikmaður PSV Eindhoven í Hollandi, kom inn á sem varamaður á 90. mínútu þegar Ísland lagði Kína, 2-0, í Kínabikarnum í Nanning í dag.

Þetta var fyrsti A-landsleikur Alberts sem á að baki í heildina 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var einn fjögurra nýliða sem fengu sínar fyrstu mínútur með A-landsliðinu í dag.

Þessi fyrsti leikur Alberts er heldur betur sögulegur og þá sérstaklega fyrir fjölskyldu hans en óhætt er að segja að hann sé af miklum fótboltaættum. Hann varð í dag fjórði ættliðurinn í sinni fjölskyldu sem spilar A-landsleik fyrir íslenska landsliðið.

Albert er sonur Kristbjargar Helgu Ingadóttur og Guðmundar Benediktssonar sem bæði spiluðu A-landsleiki fyrir Ísland. Móðir hans spilaði fjóra leiki frá 1996-1997 en Guðmundur spilaði tíu leiki og skoraði tvö mörk frá 1994-2001.

Faðir Kristbjargar og afi Alberts er markavélin Ingi Björn Albertsson sem átti markametið í efstu deild áður en Tryggvi Guðmundsson hirti það af honum. Ingi Björn spilaði fimmtán A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði tvö mörk á árunum 1971-1979.

Pabbi Inga Björns, afi Kristbjargar og langafi Alberts Guðmundssonar er alnafni hans, Albert Guðmundsson, fyrsti atvinnumaður Íslands í fótbolta. Sú mikla goðsögn spilaði sex landsleiki og skoraði tvö mörk á árunum 1946-1958.

Albert er fæddur árið 1997 en hann fór til Heerenveen í Hollandi árið 2013 en var keyptur til PSV Eindhoven sumarið 2015 þar sem hann spilar nú með varaliði félagsins.

Fjórir ættliðir í íslenska landsliðinu:

Fyrstur:
Albert Guðmundsson
6 A-landsleikir, 2 mörk frá 1946-1958

Annar:
Ingi Björn Albertsson
15 A-landsleikir, 2 mörk frá 1971-1979

Þriðju:
Kristbjörg Helga Ingadóttir
4 A-landsleikir, 0 mörk 1996
Guðmundur Benediktsson
10 A-landsleikir, 2 mörk frá 1994-2001

Fjórði:
Albert Guðmundsson
1 A-landsleikur 2017

vísir/getty

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.