Erlent

Könnuðu hvort tengsl væru milli mála Birnu og hinnar dönsku Emilie

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla notaðist við leitina að Emilie við kafara, dróna, lögregluhunda, þyrlu og mörg hundruð leitarmanna.
Lögregla notaðist við leitina að Emilie við kafara, dróna, lögregluhunda, þyrlu og mörg hundruð leitarmanna. MYND/MISSING PEOPLE DENMARK
Lögreglumenn sem rannsaka mál Birnu Brjánsdóttur könnuðu hvort tengsl væru milli málsins og morðsins á hinni dönsku Emilie Meng sem fannst látin á aðfangadag síðastliðinn eftir að hafa verið leitað síðan í júlí.

Grímur Grímsson, sem stýrir rannsókn lögreglu á dauða Birnu, staðfesti í samtali við Vísi í gær að tengslin hefðu verið könnuð.

Polar Nanoq hefði hins vegar ekki verið í höfn í Danmörku á þeim tíma sem stúlkan hvarf og því benti ekkert til þess að málin væru tengd. Togarinn lagði úr höfn í Fredrikshavn á Jótlandi laugardaginn 7. janúar áður en siglt var til Hafnarfjarðar og sá lögregla því ástæða til að kanna hvort að málin tengdust.

Leit dönsku lögreglunnar að morðingja hinnar sautján ára Emilie komst á nýtt stig eftir að lík hennar fannst í stöðuvatni á Sjálandi að morgni 24. desember. Málið vakti gríðarlega athygli í Danmörku á síðasta ári.

Leitað í fimm mánuði

Þegar lík Emilie fannst voru rúmir fimm mánuðir liðnir frá því að hún kvaddi tvær vinkonur sínar fyrir utan lestarstöðina í Korsør, vestast á Sjálandi, snemma að morgni 10. júlí. Vinkonurnar höfðu þá verið að skemmta sér í Slagelse, um tíu kílómetrum austar.

Vinkonurnar tvær höfðu ákveðið að taka leigubíl heim, en Emilie hafði valið að ganga um fjögurra kílómetra leið heim til foreldra sinna með tónlist í eyrunum.

Ekkert hafði svo spurst til Emilie síðan, fyrr en að líkið fannst. Lögregla notaðist við leitina að Emilie við kafara, dróna, lögregluhunda, þyrlu og mörg hundruð leitarmanna.

Á aðfangadag var svo greint frá því að lík Emilie hafi fundist í stöðuvatni, um 65 kílómetrum austur af Korsør. Maður sem var að viðra hundinn sinn fann lík Emilie eftir að hundurinn byrjaði skyndilega að haga sér skringilega.

Fundu hníf og fleira

Lögregla var fljótt kölluð á staðinn og við köfun fannst hníf og fleira sem talið er að gæti skipt sköpum í leitinni að morðingjanum. Morðingja Emilie er enn leitað.

Stöðuvatnið er í um 35 kílómetra akstursfjarlægð í austurátt frá Korsør. Svæðið kallast Regnmarks Bakke og eru þar fjöldi smærri stöðuvatna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.