Innlent

Athafnaði sig á svæðinu þar sem skórnir fundust í um tuttugu og fimm mínútur

Annar skipverjinn sem situr í gæsluvarðhaldi ók Kia Rio bifreiðinni inn á svæðið þar sem skór Birnu Brjánsdóttur fundust um hádegisbil á laugardaginn. Ekki sést hvað hann gerði þar.

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rauða og hvíta svæðið er svæðið þar sem skipverjinn var í um 25 mínútur án þess að sæist til hanst á eftirlitsmyndavélum. Á svæðinu fundust skór Birnu Brjánsdóttur á mánudagskvöld. Vísir/Garðar/Vilhelm/Loftmyndir
Annar grænlensku skipverjanna sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að eiga aðild að dauða Birnu Brjánsdóttur athafnaði sig í um 25 mínútur á þeim hluta hafnarssvæðisins þar sem skór Birnu fundust á mánudagskvöldið. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann lík Birnu í fjörunni við Selvogsvita klukkan eitt í gær.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, staðfestir í samtali við Vísi að rauði Kia Rio-bíllinn sem annar skipverjinn hafði á leigu sést ekið í nágrenni þess staðar þar sem skórnir finnast. Samkvæmt heimildum Vísis sést bílnum ekið frá grænlenska togaranum og svo vestur Óseyrarbraut (sjá appelsínugula línu á kortinu að ofan) á milli olíutanka Atlantsolíu og vörugeymslu Eimskips um hádegisbil á laugardeginum. 

Svæðið þar fyrir vestan er botnlangi og eftirlitsmyndavélar þar eru af skornum skammti. Þær sem eru á svæðinu eru gamlar og sýna lítið meir en umgang rétt við húsveggi og bílastæði. Ekki sést hvað skipverjinn gerir þær 25 mínútur sem líða áður en bílnum sést ekið aftur útaf svæðinu. 


Annar skórinn sem bræðurnir fundu við stafla af rörum vestan af olíutönkum Atlantsolíu. Skórnir lágu svo til hlið við hlið.Pétur Pétursson
Skór Birnu fundust á svæðinu

Á því svæði fundust skór Birnu Brjánsdóttur liggjandi í snjóföl seint á mánudagskvöldið eða um sextíu klukkustundum síðar. Lík hennar fannst svo við Selvogsvita en stysta vegalengd þangað er um 35 kílómetrar, eða um 70 kílómetrar samtals.

Fram hefur komið að bílnum var ekið um 300 kílómetra þann sólarhring sem mennirnir höfðu bílinn á leigu. Honum var skilað
 til Bílaleigu Akureyrar seinni part laugardags. Skipið lét svo úr höfn um klukkan 20 um kvöldið. Klukkan 23:37 lýsti lögregla eftir hinni tvítugu Birnu í fyrsta skipti.

En hvaða tilgátu er lögregla að vinna eftir varðandi skóna? Hvers vegna finnast skórnir við Hafnarfjarðarhöfn en líkið við Selvogsvita?

„Ég veit ekki hvort það hafi verið til að villa um fyrir eða hvort það hafi verið bara til að koma þeim fyrir, losa sig eitthvað,“ segir Grímur.

„Ég skal ekkert segja um það, það liggur ekki fyrir.“Mögulegar leiðir sem hægt er að aka frá Hafnarfjarðarhöfn að Selvogsvita.Loftmyndir/Garðar Kjartansson
Sannfærðir að skórnir hafi legið lengi á jörðinni

Tveir fundvísir bræður fundu skóna við leit að eigin frumkvæði á svæðinu á mánudagskvöld. Þeir sögðu í viðtali við Vísi í vikunni hvað hefði orðið til þess að þeir römbuðu á skóna. Samkvæmt heimildum Vísis voru skórnir fullir af snjó og eru bræðurnir sannfærðir um að skórnir hafi legið á þessum stað í lengri tíma.

Bræðurnir tóku mynd af skónum um leið og var myndinni deilt í Facebook-hópnum Leit að Birnu Brjánsdóttur. Skömmu síðar varð ljóst að mögulega væri um skó Birnu að ræða og fjarlægðu bræðurnir myndina úr hópnum tafarlaust í samráði við lögreglu. Síðar var staðfest að skórnir væru af Birnu.

Myndin fór þó fyrir augu margra en á henni sást að snjór virkaði fastur var undir skónum. Þótti mörgum það benda til þess að skórinn hefði ekki legið lengi á svæðinu, alltént ekki frá því á laugardaginn, þar sem hlýtt hefði verið í veðri á milli þess sem Birna hvarf og skórnir fundust.

Grímur var spurður út í þetta á blaðamannafundi í vikunni. Þar kom fram að bæði væri til skoðunar hvort skórnir hefðu legið þarna frá því á laugardagsmorgun eða komið þangað síðar. Bræðurnir sem komu að skónum segja aðstæður við skófundinn hafa bent til þess skórnir hafi legið þar í lengri tíma.

Skórnir eru af tegundinni Dr. Marten’s og reimaðir hátt upp. Ekki er hægt að sparka þeim reimuðum af sér heldur er ljóst að losa þarf um reimar og toga skóna af. Ekki hefur fengist uppgefið hvort Birna var klædd í föt þegar lík hennar fannst við Selvogsvita í gær.

Annað sjónarhorn af mynd 2 á kortinu efst í fréttinni. Eftirlitsmyndavélar á vöruskemmu Eimskipa ná skoti af rauða bílnum þegar honum er ekið vestur. Hann beygir ekki til hægri heldur ekur áfram inn á svæði þar sem hann afthafnar sig í um 25 mínútur. Inn á svæðinu finnast skórnir.Vísir/Vilhelm
Skortir upplýsingar frá 7-11:30

Síðast sást til Birnu í eftirlitsmyndavél á Laugavegi 31 klukkan 05:25 á laugardagsmorgun. Sími hennar tengist mastri við Flatahlaun klukkan 05:50. Skömmu síðar er slökkt handvirkt á símanum.

Fram hefur komið að bílnum var ekið inn á hafnarsvæðið um klukkan 6:10 um morguninn og lagt við Polar Nanoq. Skipið lá við bryggju aðeins austar en það er staðsett í dag, á þeim stað þar sem annar grænlenskur togari er við bryggju núna, Regina C.

Skipverjarnir stigu út úr bílnum og ræddu saman á hafnarbakkanum. Í framhaldinu fer annar skipverjinn um borð í skipið en hinn fer upp í bíl og ekur vestur eftir bakkanum. Bíllinn er á rápi um svæðið í um tuttugu mínútur í bílnum áður en skipverjinn ekur á brot.

Lögregla hefur óskað eftir því að allir ökumenn skoði í myndavélum bíla sinna hvort rauði Kia Rio-bíllinn sjáist á upptökum í bílum þeirra frá klukkan 7 til 11:30 um morguninn.  Tvær leiðir eru taldar líklegastar frá Hafnarfjarðarhöfn og í Selvogsvita en mögulegt er að líkinu hafi verið kastað í sjóinn annars staðar við sjávarsíðuna.

Skórnir fundust við þetta horn. Í baksýn má sjá Polar Nanoq (til vinstri) en hann var áður í höfn lengra til hægri þar sem blái og hvíti togarinn liggur nú í höfn.Vísir/Vilhelm
Ferð bílsins í hálftíma kortlögð

Að sögn Gríms er búið að kortleggja ferðir bílsins á höfuðborgarsvæðinu að því leyti að hann er við Laugaveg 31 klukkan 05:25. Honum er síðan ekið niður Ingólfsstræti þar sem hann hverfur úr myndavélum norðan Hverfisgötu. Talið er að honum sé síðan ekið inn á Sæbraut og þaðan áfram Reykjanesbraut en þetta er byggt á farsímagögnum.

Þá er talið að bíllinn hafi verið við Flatahraun klukkan 05:50 þegar sími Birnu kemur inn á mastur þar og svo við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar þar sem rauður bíll næst á mynd klukkan 05:53. Lögregluna grunar að það sé sami bíllinn. Um svipað leyti er slökkt á síma Birnu en óvíst er hvort það hafi verið gert handvirkt eða ekki.

Um klukkan 06:10 kemur bíllinn svo inn á hafnarsvæðið við Hafnarfjarðarhöfn. Í öllum tilvikum telur lögregla að um sé að ræða rauða Kia Rio bílinn sem annar skipverjanna hafði á leigu.


Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. Annar skipverjanna er einnig grunaður um smygl á um 20 kílóum af hassi.Vísir/Vilhelm
Mennirnir vel greinanlegir

Eins og sjá má á kortinu efst í fréttinni og myndinni hér að ofan eru fjölmargar eftirlitsmyndavélar við Hafnarfjarðarhöfn. Fleiri en merktar eru á kortið. Bæði er um að ræða vélar Hafnarfjarðarhafnar en einnig fyrirtækja á svæðinu t.d. Eimskipa og Atlantsolíu.

Gæðin í myndavélunum við Hafnarfjarðarhöfn, þ.e. við hafnarbakkann þar sem Polar Nanoq var í höfn, eru mjög góð.  Skipverjarnir tveir eru því vel greinanlegir í upptökunum frá Hafnarfjarðarhöfn.

Þeir eru báðir á þrítugsaldri og voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í gær vegna gruns um manndráp. Lögregla fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald og kærði því úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem á eftir að kveða upp dóm sinn í málinu. Síðan hefur fengist staðfest að blóð sem fannst í bílnum er úr Birnu og mun lögregla nota þær upplýsingar til að styrkja kröfu sína um varðhald.Kort sem sýnir ferðalag Polar Nanoq frá og aftur til Hafnarfjarðarhafnar eftir að ákveðið var að snúa skipinu til Íslands.Garðar Kjartansson
Allsherjarleit um helgina

Polar Nanoq lét úr höfn um klukkan 20 á laugardagskvöld og liðu tæpar 100 klukkustundir þangað til sérsveitarmenn komu um borð í togarann á hafi úti. Skipverjarnir tveir höfðu því fyrrnefndan tíma til að samræma framburð sinn.

„Það er náttúrulega vont ef sakborningar ná að samræma framburð en það er nú þannig að slíkt tekst aldrei 100 prósent þannig að það getur líka ákveðinn vandi fyrir menn að samræma framburð. Það getur verið erfitt fyrir menn að halda utan um hvað maður ætlar að segja,“ segir Grímur.

„Maður getur lent í ógöngum þegar maður segir ekki satt, það er vandinn við það að segja ósatt.“

Yfirheyrslur yfir mönnunum fyrir helgi skiluðu litlum upplýsingum en mennirnir neita staðfastlega sök. Lögregla á von á að þeir verði yfirheyrðir í dag eða á morgun.

Á áttunda hundrað manns komu að leitinni að Birnu um helgina en leit að vísbendingum hélt áfram í fram á kvöld í gær og verður líkast til framhaldið Tengdar fréttir

Óku rauða bílnum um 300 kílómetra á einum sólarhring

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á máli Birnu Brjánsdóttur sem talið er að hafi fundist látin í dag, segir að rauða Kio Rio-bílnum hafi verið ekið samtals um 300 kílómetra á þeim sólarhring sem skipverji af grænlenska togaranum Polar Nanoq var með bílinn á leigu.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.