Fótbolti

Capello: Conte verður að ná árangri með Chelsea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Conte og Capello eiga það sameiginlegt að hafa þjálfað Juventus.
Conte og Capello eiga það sameiginlegt að hafa þjálfað Juventus. vísir/epa
Fabio Capello hefur varað Antonio Conte við því að hann verði að ná árangri með Chelsea og það strax.

Í dag var tilkynnt um það að Conte myndi hætta þjálfun ítalska landsliðsins eftir EM í Frakklandi en það gefur sögusögnum þess efnis að hann verði næsti knattspyrnustjóri Chelsea byr undir báða vængi.

Conte náði frábærum árangri sem stjóri Juventus en hann gerði liðið að ítölskum meisturum þrjú ár í röð (2012-14). Capello segir hins vegar að enska úrvalsdeildin sé allt annar veruleiki og kröfurnar hjá Chelsea séu gríðarlega miklar.

„Chelsea er félag sem verndar þig ekki eins og Juventus gerir,“ sagði Capello sem stýrði einmitt Juventus á árunum 2004-06.

„Ef [Roman] Abramovich kaupir 5-6 leikmenn geturðu ekki endað í 5. sæti,“ bætti hinn 69 ára gamli Capello við en hann er einn þeirra sem hefur verið nefndur til sögunnar sem eftirmaður Conte með ítalska landsliðið.

Capello var síðast við stjórnvölinn hjá rússneska landsliðinu en hann var rekinn þaðan síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×