Mourinho þekkir vel til á Englandi eins og allir vita en hann stýrði Chelsea í tvígang frá 2004-2008 og aftur frá 2013 byrjun síðasta tímabils. Hann vann ensku úrvalsdeildina þrisvar sinnum og bikarinn einu sinni.
Sjá einnig:Mourinho: Einstakur heiður í þessari íþrótt að vera stjóri Man. United
Portúgalinn var ráðinn stjóri Chelsea eftir að honum tókst það ótrúlega þegar hann gerði Porto að Evrópumeisturum 2004 eftir sigur á Monaco í úrslitaleik. Mourinho hefur á sínum ferli unnið níu landstitla á 16 tímabilum, fjórar bikarkeppnir í fjórum löndum og Meistaradeildina í tvígang með Porto og Inter.
Leiðin að þeim Meistaradeildartitlinum með Prto fór í gegnum Old Trafford þar sem Mourinho skaust upp á stjörnuhimininn. Og nú, tólf árum síðar, er hann orðinn knattspyrnustjóri Manchester United.

Porto og United mættust í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar 2004 og hafði portúgalska liðið betur, 2-1, á heimavelli. Útivallarmark Quinton Fortune virtist þó ætla að reynast United-liðinu dýrmætt því Paul Scholes kom United yfir í heimaleiknum, 1-0, og þannig var staðan fram á síðustu mínútu leiksins.
Þá var komið að stundinni sem gerði Mourinho fyrst frægan. Eftir mistök Tim Howard í marki United fylgdi Portúgalinn Costinha eftir aukaspyrnu og skoraði markið sem kom Porto í átta liða úrslitin.
Mourinho fagnaði gífurlega og hljóp alla hliðarlínuna að lærisveinum sínum og fagnaði með þeim. Porto skellti svo Lyon í átta liða úrslitum og Deportivo La Coruna í undanúrslitum áður en liðið stóð uppi sem sigurvegari eftir 3-0 sigur á Monaco í úrslitaleiknum.
„Við skoruðum á Old Trafford á síðustu mínútunni. Ef við hefðum ekki skorað hefðum við verið úr leik,“ sagði José Mourinho um fagnað fræga í viðtali við heimasíðu UEFA fyrr á þessari leiktíð en myndband af atvikinu má sjá hér.