Enski boltinn

Memphis: Þetta var ekki slæmt ár en heldur ekki gott ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Memphis var ekki góður í vetur.
Memphis var ekki góður í vetur. vísir/getty
Memphis Depay, leikmaður Manchester United, viðurkennir að hann átti ekki góða fyrstu leiktíð á Old Trafford en þessi 22 ára gamli Hollendingurinn olli miklum vonbrigðum á tímabilinu.

Stuðningsmenn Manchester United voru virkilega spenntir fyrir Depay sem var keyptur frá PSV Eindhoven eftir frábæra síðustu leiktíð í Hollandi þar sem hann var kjörinn leikmaður ársins.

Hann fór ágætlega af stað með United en spilaði á endanum bara þrettán leiki sem byrjunarliðsmaður í ensku úrvalsdeildinni og var ekki einu sinni valinn í leikmannahópinn fyrir úrslitaleik enska bikarsins.

„Þetta var ekki slæmt ár en heldur ekki gott ár,“ segir Memphis í viðtali við Unscriptd. „Þetta var svona miðlungsgott ár. Ég geri meiri kröfur til sjálfs míns og stuðningsmennirnir gera það líka sem er eðlilegt.“

„Þetta tímabil var nýtt fyrir mér þar sem ég var að spila í úrvalsdeildinni í fyrsta skipti. Reynslan sem ég hef öðlast er mikilvæg en það eru líka hlutir sem ég þarf að sætta mig við.“

Memphis fékk heldur betur að kynnast því að sitja á bekknum á þessari leiktíð en það er eitthvað sem hann var ekki vanur.

„Stundum gerði ég mistök eða spilaði ekki vel og þá er maður settur á bekkinn sem er nýtt fyrir mér. Á síðustu leiktíð með PSV spilaði ég alla leiki og skoraði alltaf. Nú var ég stundum á bekknum allan leikinn. Auðvitað var það eitthvað sem ég var ósáttur við,“ segir Memphis.

Hollenski kantmaðurinn fær nú tækifæri til að heilla nýjan knattspyrnustjóra en í morgun var José Mourinho ráðinn sem nýr stjóri Manchester United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×