Enski boltinn

Mourinho: Einstakur heiður í þessari íþrótt að vera stjóri Man. United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho hefur unnið flotta sigra á Old Trafford og heldur því vonandi áfram fyrir stuðningsmenn United.
José Mourinho hefur unnið flotta sigra á Old Trafford og heldur því vonandi áfram fyrir stuðningsmenn United. vísir/getty
„José er einfaldlega besti knattspyrnustjórinn í dag,“ segir Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, um Portúgalann José Mourinho sem var í morgun staðfestur af félaginu sem nýr knattspyrnustjóri þess.

Mourinho, sem hefur áður stýrt Chelsea til þriggja Englandsmeistaratitla, tekur við starfinu af Louis van Gaal sem var rekinn á mánudaginn eftir að vinna enska bikarinn en takast ekki að komast í Meistaradeildina.

Mourinho hefur marga hildi háð við Manchester United í gegnum tíðina en segist alltaf hafa fundið fyrir ákveðnum tengslum við félagið og stuðningsmenn þess.

„Það er einstakur heiður í þessari íþrótt að vera knattspyrnustjóri Manchester United. Þetta er félag sem er þekkt og dáð út um allan heim. Það er meiri dulúð og rómantík í kringum Manchester United en nokkurt annað félag,“ segir Mourinho á heimasíðu Manchester United.

„Ég hef alltaf fundið fyrir tengslum við Old Trafford. Hér á ég margar góðar stundir frá mínum ferli og samband mitt við stuðningsmenn United hefur alltaf verið gott. Ég hlakka nú til að vera stjórinn þeirra og njóta þessa magnaða stuðnings næstu árin,“ segir José Mourinho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×