Innlent

Dýr atkvæði Davíðs

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kostnaður við fjögur dýrustu framboðin
Kostnaður við fjögur dýrustu framboðin
Davíð Oddsson varði tæpum 28 milljónum króna í kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningarnar sem fram fóru í sumar. Hann hafnaði í fjórða sæti og fékk rúmlega 25 þúsund atkvæði. Þar með greiddi Davíð rúmlega 1.100 krónur fyrir hvert atkvæði sem hann fékk. Enginn hinna þriggja frambjóðendanna sem flest atkvæði fengu kemst nálægt því.

Næstmest galt Andri Snær Magnason fyrir hvert atkvæði. Hann varði fimmtán milljónum í kosningabaráttu sína og uppskar um 26 þúsund atkvæði sem gera 576 krónur á hvert þeirra.

Sigurvegarinn og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, varði um 25 milljónum í sína kosningabaráttu og uppskar rúmlega 71 þúsund atkvæði. Alls 352 krónur á hvert atkvæði.

Halla Tómasdóttir, sem hafnaði í öðru sæti, varði bæði minnstu í kosningabaráttu sína og minnstu á hvert atkvæði. Alls fóru tæpar níu milljónir í baráttuna og hún fékk tæp 51 þúsund atkvæði. Það gera 175 krónur á hvert atkvæði sem hún fékk.

Frambjóðendurnir styrktu eigin framboð mismikið. Sá sem mest styrkti eigið framboð var Davíð en hann lét rúmar ellefu milljónir úr eigin vasa í framboðið. Halla styrkti sitt framboð um rúmar tvær milljónir og Guðni og Andri Snær létu um eina milljón króna hvor í framboð sitt.

Aðrir frambjóðendur ráku mun ódýrari kosningabaráttu. Framboð Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur kostaði um hálfa milljón króna en framboð Ástþórs Magnússonar, Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, Hildar Þórðardóttur og Sturlu Jónssonar kostuðu öll minna en 400 þúsund krónur. Sé kostnaður allra þeirra framboða lagður saman kemst hann því hvergi nálægt kostnaði neins hinna fjögurra framboðanna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.