Innlent

Starfsmaður heilsugæslu fær ekki bætur vegna hálkuslyss

Anton Egilsson skrifar
Bílaplön geta verið slysagildra í mikilli hálku.
Bílaplön geta verið slysagildra í mikilli hálku. Vísir/Stefán
Kona sem slasaðist í hálku fyrir utan vinnustað sinn fær ekki bætur. Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði íslenska ríkið í máli sem konan höfðaði á hendur þess. 

Konan var á leið frá vinnu sinni laugardaginn 25. janúar 2014 þegar slysið átti sér stað. Var hún í fríi fyrrnefndan dag en þurfti að koma við í vinnunni til að klára ákveðið verkefni.

Þó nokkrir slasast á bílaplaninu

Um aðstæður á vettvangi þegar slysið átti sér stað sagði konan að mikil hálka hafi verið á bílaplaninu og hafi hún runnið til þegar hún var við það að setjast inn í bíl. Afleiðingar líkamstjóns hennar eru varanlegar.

Í yfirlýsingu hennar sem gefin var fyrir dómi segir að planið hafi verið til vandræða um árabil, en veturinn 2013-2014 hafi verið óvenju erfiður hvað hálku varðaði. Þó nokkrir skjólstæðingar heilsugæslunnar og einn starfsmaður hennar hefðu flogið á hausinn á planinu um veturinn. Ekki hafði bílaplanið verið saltað umræddan laugardag.

„Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um að gripið yrði til aðgerða gegn hálku á planinu fyrir utan heilsugæsluna, t.d. með því að hitaleggja planið, hafi ekkert verið gert í þeim málum og virðist ekki líta út fyrir að slíkt verði gert. Þegar hálka hafi verið á planinu hafi þurft að hafa samband við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem sent hafi starfsmenn til að sanda planið þegar þeir hafi komist í það.“ segir í yfirlýsingu konunnar fyrir dómi.

Hefði átt að vera kunnugt um hálkuna

Í rökstuðningi héraðsdóms fyrir sýknunni er tekið fram að umrætt slys hafi átt sér stað utan hefðbundins opnunartíma heilsugæslustöðvarinnar. Atvikið hafi átt sér stað á laugardegi en ekki hafi mátt reikna með að planið væri saltað þá. Þá benti dómurinn einnig á að konunni ætti að vera vel kunnugt um hálkuna sem myndast gæti á bílaplaninu. Taldi dómurinn að slys konunnar yrði rakið til óhappatilviljunnar eða gáleysis hennar sjálfrar. 

Vísir fjallaði fyrir skemmstu um mál konu sem hlaut varanlegt líkamstjón eftir að hafa runnið í hálku fyrir utan leikskóla dóttur sinnar. Í því máli var Hafnarfjarðarbær látinn bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni konunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×