Innlent

Telja sig hafa fundið fullkomið bókhald yfir fíkniefnaviðskipti í tölvu Íslendingsins

Birta Svavarsdóttir skrifar
Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjaness.
Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/valli
Lögreglumaður sem vann að rannsókn stórfellds fíkniefnsmygls segir að Excel-skjöl sem fundust á tölvu eins ákærða innihaldi fullkomið bókhald yfir fíkniefnaviðskipti og séu sambærileg við önnur fíkniefnamál sem þeir hafa tekið fyrir.

Hann var einn lögreglumanna sem báru vitni fyrir Héraðsdómi Reykjaness í vikunni en þar stendur nú yfir aðalmeðferð í stóru fíkniefnamáli. Tveir Hollendingar og tveir Íslendingar eru ákærðir fyrir að hafa árið 2015 staðið saman að því að flytja hingað til lands um 23 kíló af sterkum fíkniefnum, þar af tæp tuttugu kíló af amfetamíni og rúm þrjú kíló af kókaíni. Vísir hefur greint frá málinu síðastliðna daga.

Tölur í skjalinu passa við götuverð fíkniefna

Við húsleit lögreglu fannst í tölvu annars Íslendingsins mikið magn Excel-skjala ásamt forritum til að dulkóða og læsa gögnum. Í vitnisburði lögreglu í dómssal í fyrradag kom fram að þeirra faglega mat væri að skjölin væru fullkomið bókhald yfir fíkniefnaviðskipti. Þeir hafi lagt mikla vinnu í að greina skjölin og hafi séð samskonar bókhald í flestöllum fíkniefnamálum sem þeir fáist við.

Í skjalinu hafi verið að finna útreikninga og upplýsingar um afhendingu og móttöku á fíkniefnum, magn efnis, skuldalista og innkomu af peningum. Við nánari athugun hafi einnig formúlur og tölur á bak við útreikninga skjalanna passað við götuverð sölueininga á fíkniefnum, nánar til tekið kókaíns og amfetamíns. Þá hafi upphæðir úttekta af iKortum sem Íslendingarnir höfðu undir höndum samræmst tölum í skjölunum.

Í dómssal í fyrradag.Vísir/Ernir
Lögreglan sagði allar tölur og nöfn sem fundust í skjalinu hafa verið bornar undir sakborning en hann hafi lítið getað eða viljað tjá sig um málið. Hann hafi sagt þetta mögulega geta verið próflausnir, en hann er menntaður í viðskiptafræði.

Í vitnisburði lögreglumanns kom einnig fram að skjölin hafi verið falin í tölvu sakbornings og að þau væru að öllu leyti dæmigerð fyrir utanumhald neðanjarðarbókhalds.

Telja skjölin sýna yfirlit yfir gjaldeyriskaup og skipulag á fjármögnun

Verjandi sakbornings spurði hvort finna mætti einhver bein tengsl á milli upplýsinganna úr skjölunum við hið tiltekna mál sem væri nú verið að taka fyrir.

„Hér eru það aðallega gjaldeyriskaupin sem eiga við og mynda þessi beinu tengsl. Fjármögnunin öll, kaupin á iKortum og hliðstæð verð. Þetta er ekki eitthvað sem er búið að gerast, þetta er áætlun á fjármögnun til næstu kaupa. Eitthvað sem verið er að skipuleggja.“

„En áttuð þið eitthvað við þetta skjal? Hafið þið til dæmis breytt stöfum í nöfn?“ spurði verjandi þá.

„Átt við þau? Nei, alls ekki. Það liggur fyrir að hér eru ákveðin grunnskjöl og svo eru til afrit af þeim þar sem búið er að bæta við athugasemdum. Hvert skjal er í þremur eintökum; upprunalegt afrit, afrit með athugasemdum lögreglu og afrit þar sem prentaðar eru út þær formúlurnar sem liggja að baki hverri tölu. En við höfum ekki átt við upprunalega skjalið sem slíkt.“


Tengdar fréttir

Á hælum Angelo dögum saman: „Hrein og klár tilviljun“

Annar Íslendinganna sem ákærður er fyrir að hafa skipulagt og fjármagnað að hluta innflutning á um 23 kílóum á sterkum fíkniefnum segir það hreina og klára tilviljun að hann hafi ítrekað verið staddur á sama stað og Angelo Uyleman, Hollendingur sem einnig er ákærður í málinu.

Sagði Angelo ófæran um að fara einan til Íslands

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Angelo og þremur öðrum mönnum hóst í gær. Þeir eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Angelo er greindarskertur og sést á geðmati að hann er með slakan þroska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×