Innlent

Staðsetti Angelo sem tólf ára í aldri

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Móðir Angelo er vitni í málinu og gaf skýrslu fyrir dómi í gær.
Móðir Angelo er vitni í málinu og gaf skýrslu fyrir dómi í gær.
„Hann er afskaplega léttur á yfirborðinu og hvers manns hugljúfi,“ sagði geðlæknirinn Tómas Zoëga, en hann er einn þeirra sem gáfu skýrslu sem vitni fyrir Héraðsdómi Reykjaness í gær í máli ákæruvaldsins gegn Angelo Uyleman, öðrum Hollendingi og tveimur Íslendingum. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa flutt tæplega 23 kíló af sterkum fíkniefnum til landsins með Norrænu í september í fyrra.

Tómas á við Angelo en mál hans hefur vakið töluverða athygli sökum andlegra veikinda hans. Hann er 29 ára hollenskur ríkisborgari og er sá sem flutti efnin hingað til landsins.

Angelo breytti framburði sínum fyrir dómi frá því sem hann sagði hjá lögreglu á sínum tíma þar sem hann kvaðst hafa vitað af fíkniefnunum í bílnum sem hann fór með hingað til lands. Fyrir dómi segist hann ekki hafa vitað af efnunum.



Angelo þægilega barnalegur


Tómas framkvæmdi geðmat á Angelo og sagði fyrir dómi að hann væri „þægilega barnalegur“ þegar hann var beðinn um að lýsa honum. Hann sagði Angelo vera þóknunargjarnan. „Já, hann vildi gera mér allt til geðs og vill ekki segja nei.“ Hann sagðist þó ekki átta sig á því hvort Angelo væri líklegur til að hafa þóknast lögreglu þegar þeir spurðu hann á sínum tíma hvort hann hefði vitað af efnunum. Við skýrslutöku hjá lögreglu var honum sagt að það liti asnalega út ef hann segðist ekki vita af efnunum og að þannig gæti hann átt von á þyngri dómi



Efasemdir um árangur refsingar

„Refsing kynni að bera árangur en ég hef ákveðnar efasemdir um það. Það er dómsins að ákveða,“ sagði Tómas og bætti við að Angelo væri þó ekki ósakhæfur í skilningi laga þrátt fyrir að greindarvísitala hans sé lág. „Hann er einlægur, auðtrúa, barnalegur og gerir allt til að þóknast mönnum. Þessi maður hefur ekki frumkvæði að einu né neinu af þessu tagi,“ sagði hann og bætti við að hann teldi að sérúrræði myndu henta betur en fangelsisrefsing. Angelo væri engum hættulegur.

Þá kom vitnið Sólveig Jónsdóttir, doktor í taugasálfræði fyrir dóm. Hún framkvæmdi próf á Angelo en sagði hann ekki vera greindarskertan samkvæmt skilgreiningu sálfræðinnar. „Hann er með lága meðalgreind.“ Hún útskýrir að Angelo hafi tekið nokkur próf og væri mikill misstyrkur í færni hans, „hann stendur sig vel í sumu en er slakur í öðru“. Hún sagði hann sterkan í sjónrænum þáttum og að vinna úr sjónrænum upplýsingum.

Sagði öllum sem hann þekkti frá nýju vinnunni

Þá var Sólveig beðin um að staðsetja Angelo í aldri þrátt fyrir að hugtakið greindaraldur væri ekki notað í dag. Hún sagði þá: „Þetta er erfitt en ég gæti sagt 12 ára.“

Móðir Angelo er einnig vitni í málinu og gaf skýrslu í gær. Fréttablaðið fjallaði um það á sínum tíma að fjölskylda Angelo hafi ekki vitað hvar hann væri í fimm vikur en lögregla lét engan vita eftir að hann var handtekinn. Fjölskylda Angelo lét lýsa eftir honum í fjölmiðlum og komst þá að því að hann væri í fangelsi á Íslandi. Í kjölfarið lýsti hún yfir miklum áhyggjum enda sagði móðir hans son sinn verulega greindarskertan.

Fyrir dómi í gær sagði hún Angelo hafa verið mjög glaðan eftir að honum var boðin vinna við að flytja sendingu til Íslands. „Hann hafði verið búinn að sækja um störf en fékk aldrei neitt. Hann fór til allra sem hann þekkti og sagði frá nýju vinnunni.“

Aðspurð hvort henni hafi ekki þótt grunsamlegt að sonur hennar hafi fengið þessa vinnu sagði hún að henni hafi þótt það skrítið og spurt hann af hverju Ísland, en hún hafi svo ákveðið að aðhafast ekkert meir. „Ég reyndi að hafa samband við þá sem útveguðu honum vinnuna en þá sögðust þeir ekki vera fyrirtæki og ég hætti að reyna.“



Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×