Innlent

Skotárásin í Breiðholti: Maðurinn ófundinn en vitað hver hann er

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Iðufelli á föstudagskvödið.
Frá vettvangi í Iðufelli á föstudagskvödið. Vísir/Eyþór Árnason
Maðurinn sem leitað hefur verið að í tengslum við átök og skothvelli í Breiðholti á föstudagskvöld er enn ófundinn, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar. Hann segir rannsókn málsins í fullum gangi og að eitt af meginmarkmiðum hennar snúi að ástæðum átakanna.

Friðrik Smári segir í samtali við fréttastofu að margar og misvísandi upplýsingar hafi borist undanfarna daga og að meðal annars sé unnið út frá þeim. Hins vegar sé talið nær fullvíst að um hafi verið að ræða deilur innan þröngs hóps. 

Karlmaður og kona voru handtekin í tengslum við málið. Maðurinn var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald en konan var látin laus. Annars manns er enn leitað en lögregla telur sig þó vita hver hann er. 

Friðrik Smári Björgvinsson.Vísir/Anton Brink
Allt kapp lagt á að finna manninn

Friðrik Smári segir manninn áður hafa komið við sögu lögreglu, en vill ekki gefa upp ástæður þess né frekari upplýsingar um manninn. Hann segir almenningi ekki stafa hætta af honum. Þá segir hann enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort lýst verði eftir manninum. 

Friðrik segir rannsóknina í fullum gangi og að allt kapp sé lagt á að finna manninn. 

Atvikið átti sér stað seint á föstudagskvöldið við Iðufell í Breiðholti. Mikil slagsmál höfðu brotist út og í kjölfarið var skotið úr haglabyssu í átt að rauðum Yaris. Sérsveit ríkislögreglustjóra var send á staðinn og lokaði svæðinu af. 


Tengdar fréttir

Telja sig þekkja byssumennina

Lögreglan leitar nú að tveimur mönnum sem grunaðir eru um skotárásina í Breiðholti í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×