Enski boltinn

Mourinho: Er mættur hingað til að vinna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mourinho í göngu í Lundúnum á dögunum.
Mourinho í göngu í Lundúnum á dögunum. vísir/getty
Jose Mourinho, nýráðinn stjóri Manchester United, er spenntur fyrir komandi tímum hjá félaginu. Portúgalski stjórinn getur ekki beðið eftir að komast út á æfingarvöllinn og byrja að vinna með liðinu, en hann segist vera stoltur.

„Mér líður frábærlega. Þetta er mikill heiður, ég er stoltur, ég er allt. Ég er hingað mættur til að vinna og get ekki beðið eftir sjöunda júlí til þess að fara út á völl,” sagði Mourinho við sjónvarpsstöð United.

„Ég held að þetta komi á réttum tíma á mínum ferli því Manchester United er einn af þessum klúbbum sem ég kalla risa klúbb. Þú verður að vera undirbúinn fyrir þetta og þeir þurfa bestu þjálfarana. Ég held að ég sé tilbúinn.”

Mourinho hefur mætt United í 20 leikjum sem þjálfari; unnið níu, gert níu jafntefli og einungis tapað tvisvar. Hann segist alltaf hafa tengst stuðningsmönnum klúbbsins.

„Ég mun gefa allt til þess að fara í þá átt sem við viljum. Ég held að stuðningsmennirnir séu að vonast eftir því að ég segi að ég vilji vinna og leikmennirnir þurfa að hlusta á það að ég vil vinna.”

„Ég man eftir þegar við unnum á Old Trafford með Real Madrid (í 16-liða úrslitunum tímabilið 2012-2013) og þá sagði ég að betra liðið hafði tapað. Real Madrid var ekki ánægt með það,” sagði þessi litríki þjálfari að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×