Fótbolti

Heimir tekur þátt í ráðstefnunni í Hörpu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, verður meðal þátttakenda á ráðstefnu um viðskipti og fótbolta sem haldin verður í Hörpu þann 11. maí.

Ráðstefnan ber heitið „Að byggja vinningslið - hvað getur atvinnulífið lært af boltanum?“ en þar koma fram heimsþekktar fótboltastjörnur og leiðtogar úr heimi knattspyrnu og atvinnulífs.

Eins og fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum ráðstefnunnar mun Heimir taka þátt í umræðum sem lúta að því hvernig er að stýra Davíð eða Golíat í viðskiptum og umræðum.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, mun stýra umræðunum en ásamt Heimi munu Ramon Calderon, fyrrum forseti Real Madrid, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Grímur Sæmundsson, forstjóri Bláa Lónsins, taka þátt í þeim.

Allar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu hennar. Miðar eru til sölu á Tix.is.

Tilkynningin:

„Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu verður á ráðstefnunni „Að skapa vinningslið – hvað getur atvinnulífið lært af boltanum?“ í Hörpu þann 11. maí

Á ráðstefnunni koma saman heimsþekktar fótboltastjörnur og leiðtogar úr heimi knattspyrnu og atvinnulífs og ræða hvernig hægt er að nýta afreksþjálfun, teymishugsun, stjórnun og annað sem einkennir sigursæl íþróttalið inn í íslensk fyrirtæki.  

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari mun taka þátt í umræðum sem snúa að því hvernig er að stýra Davíð eða Golíat í viðskiptum og íþróttum. Þessum umræðum mun Árelía Eydís dósent í leiðtogafræðum við Háskóla Íslands stýra.  Auk þeirra mun Ramón Calderón fyrrum forseti Real Madrid, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa Lónsins taka þátt í viðkomandi umræðum.

„Ég er mjög spenntur að heyra hvernig Chris Coleman landsliðsþjálfari Wales hefur byggt upp sitt teymi sem hefur náð frábærum árangri. Það verður áhugavert að bera saman hans hugmyndafræði saman við okkar. Að auki þá verða helstu leiðtogar íslenska atvinnulífsins með á ráðstefnunni sem eiga eflaust eftir að gefa okkur góða innsýn og lærdóm fyrir EM í Frakklandi. Ég hlakka til að deila minni reynslu og læra af öðrum“ segir Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu.

Aðrir íslenskir þátttakendur á ráðstefnunni eru m.a. Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik,  Andri Þór Gudmundsson forstjóri Ölgerðarinnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður FKA, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Halla Tomasdottir, rekstrarhagfræðingur og forsetaframbjóðandi, Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík, Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur, Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs hjá SA og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.

Þekktar erlendar stjörnur og leiðtogar munu einnig taka þátt.

Ramón Calderón er annar af skipuleggjendum ráðstefnunarinnar. Hann hefur fengið til liðs við sig marga þekkta aðila úr knattspyrnuheiminum til þess að taka þátt í ráðstefnunni. Meðal þeirra sem verða í Hörpu þann 11. maí eru, David Moyes fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United og Everton, Kevin Keegan fyrrum landsliðsþjálfari Englands og leikmaður Liverpool, John Carlin rithöfundur og blaðamaður hjá Financial Times og El País en hann skrifaði m.a. sögu Nelson Mandela sem bókin Invictus er byggð á og Chris Coleman landsliðsþjálfari Wales í knattspyrnu, en landslið Wales var að tryggja sér sæti á EM í fyrsta skipti.

Ráðstefnan er fyrir alla sem vilja efla sitt teymi hvort sem viðkomandi er almennur liðsmaður eða stjórnandi. Þetta á við aðila hvort sem þeir eru í viðskiptum, íþróttum eða öðru.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×