Enski boltinn

Kemur Gylfi í veg fyrir að Brendan Rodgers verði aftur stjóri Swansea?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Swansea City er enn að leita sér að framtíðarknattspyrnustjóra en Francesco Guidolin tók við liðinu tímabundið á miðju tímabili.

Undir stjórn Francesco Guidolin hefur Swansea City losað sig endanlega við alla fallbaráttu og enginn hefur spilað betur en íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson síðan að Ítalinn tók við.

Brendan Rodgers, fyrrum knattspyrnustjóri Swansea, hefur verið orðaður við sína gömlu stöðu síðan að hann var rekinn frá Liverpool en orð Gylfa eftir sigurinn á Chelsea um helgina gætu sett strik í reikninginn fyrir Brendan Rodgers.

Gylfi talaði um það eftir sigurmark sitt á móti Chelsea á laugardaginn að hann vildi helst að Francesco Guidolin yrði framtíðarstjóri liðsins.  Gylfi  hefur skorað 9 mörk í síðustu 14 leikjum liðsins og það er ljóst að forráðamenn Swansea munu hlusta á hvað Gylfi telji vera best að gera í stöðunni.

Swansea City var að dragast niður í fallbaráttuna þegar Garry Monk var rekinn og nú er liðið komið með 40 stig og þrettán stigum meira en liðið í fallsæti.

Gylfi þekkir það vel að spila undir stjórn Brendan Rodgers en hann skoraði 7 mörk í 18 leikjum undir stjórn Rodgers vorið 2012. Gylfi bauðst til að fara til Rodgers í Liverpool sumarið eftir en ákvað frekar að fara til Tottenham.

„Þegar úrslitin eru að falla með liðinu þá lítur þetta vel út fyrir knattspyrnustjórann, fyrir stjórnarformanninn sem tekur ákvarðanirnar og fyrir leikmennina," sagði Gylfi eftir leikinn en það má sjá viðtal við hann hér.

„Hann [Guidolin] hefur komið inn nokkrar af sínum hugmyndum og hann er mjög skipulagður eins og Ítalir eru þekktir fyrir. Hann er hrifinn af því að halda hreinu, það er pottþétt. Allt lítur betur út þegar liðið nær að búa til svona stigamun," sagði Gylfi.


Tengdar fréttir

Sögubækur Swansea bíða

Gylfi Þór Sigurðsson getur jafnað við Wilfried Bony sem markahæsti leikmaður Swansea í sögu liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Hann á eftir að skora á móti Chelsea í ár en sigurmark yrði líka sögulegt.

Gylfi: Þetta lítur vel út fyrir okkur

"Þetta lítur vel út fyrir okkur. Frábær sigur hjá okkur í dag og góður leikur af okkar hálfu,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, eftir sigurinn gegn Chelsea í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×