Sport

Hann þarf barnapíu við ísskápinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sandoval hefur verið í betra formi.
Sandoval hefur verið í betra formi. vísir/getty
Boston Red Sox reynir að létta stórstjörnu sína sem sleit beltið sitt í miðjum leik á dögunum.

Pablo Sandoval er maðurinn en hann er með samning upp á tæpa 12 milljarða króna við Red Sox.

Hann hefur oft átt í vandræðum með þyngdina en það keyrði um þverbak er hann kom síðast úr fríi. Hann þótti allt of feitur.

Hann missti sæti sitt í byrjunarliði félagsins og er hann spilaði á dögunum þá slitnaði beltið utan af honum. Menn fá líklega ekki skýrara merki um að þeir þurfi að fara í megrun.

Sjálfur er Sandoval í bullandi afneitun. Hann rífur bara kjaft og segist vilja komast frá félaginu fái hann ekki að spila.

Vinur hans og fyrrum þjálfari, Ethan Banning, segir að þetta sé snúin staðan.

„Ég elska manninn en þetta er erfið ást. Hann þarf að vera nógu skynsamur og viðurkenna að hann eigi við vandamál að stríða. Þetta er sama og með alkóhólista sem vill ekki viðurkenna að hann sé alki,“ sagði Banning.

„Hann hefur margsannað að það verður einhver að halda í höndina á honum. Þetta snýst ekkert um hreyfingu heldur eingöngu um mataræði. Við þurftum einu sinni að hafa kokk sem eldaði aðeins ofan í hann. Ég veit að það er grimmt að segja það en hann þarf barnapíu við ísskápinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×