Enski boltinn

88 prósent líkur á að Leicester verði meistari

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Wes Morgan fagnar sigurmarkinu í síðasta leik.
Wes Morgan fagnar sigurmarkinu í síðasta leik. vísir/getty
Leicester er heldur betur í góðum málum á toppnum í ensku úrvalsdeildinni en liðið er með sjö stiga forskot þegar sex umferðir eru eftir.

Liðið vann fjórða 1-0 sigurinn í röð um síðustu helgi og þann fimmta í síðustu sex leikjum þegar fyrirliðinn Wes Morgan tryggði refunum sigur á Southampton á heimavelli.

Tottenham er í öðru sæti deildarinnar með 62 stig en Arsenal er í þriðja sætinu með 58 stig, ellefu stigum á eftir Leicester en á leik til góða. Manchester City er svo í fjórða sæti með 54 stig og United 53 stig í fimmta sæti.

ESPNFC hefur birt glæsilega tölfræðigrafík byggða á útreikningum SPI eftir hverja umferð síðustu vikur þar sem reiknað er út hvaða lið eru líklegust til að vinna titilinn.

Eftir sigurinn á Southampton um síðustu helgi fór Leicester úr 77,9 prósentum í 88,2 prósent en það er auðvitað lang líklegasta liðið til að lyfta bikarnum í maí.

Tottenham á 7,8 prósent möguleika á að verða Englandsmeistari úr þessu og Arsenal 3,8 prósent en Skytturnar virðast líklegar til að vinna restina af leikjunum sínum. Manchester City á 0,1 prósent möguleika á að verða meistari, samkvæmt SPI.

Hér má sjá þessa tölfræðiúttekt en þar kemur fram að 44 prósent líkur eru á að Leicester vinni næsta leik gegn Sunderland. Bestu líkur liðsins á sigri eru gegn Swansea í lok apríl en þær minnstu gegn Chelsea á útivelli í lokaumferðinni. Leicester þarf tólf stig til þess að verða öruggur meistari.

Einnig er farið yfir liðin sem gætu náð Meistaradeildarsæti en þar eru Norður-Lundúnarliðin Tottenham og Arsenal örugg með 98 og 96 prósent en Manchester City (61 prósent líkur) og Manchester United (35 prósent líkur) berjast um fjórða sætið.


Tengdar fréttir

Ranieri og Kane bestir í mars

Toppliðin tvö í ensku úrvalsdeildinni hirtu verðlaun marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni.

Fuchs vill sparka í NFL-deildinni

Austurríski landsliðsmaðurinn í Leicester City, Christian Fuchs, er farinn að huga að því hvað hann vill gera er knattspyrnuferlinum lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×