Enski boltinn

Ótrúlegir 12 mánuðir að baki hjá Leicester

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Leicester hafa upplifað ótrúlega tólf mánuði.
Stuðningsmenn Leicester hafa upplifað ótrúlega tólf mánuði. Vísir/Getty
Á þessum degi fyrir nákvæmlega ári síðan breyttist Leicester og byrjaði að vinna knattspyrnuleiki. Síðan þá hefur liðið ekki litið um öxl.

Leicester trónir nú á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stiga forystu á Tottenham þegar sex umferðir eru eftir af tímabilinu.

Fyrir réttu ári síðan var Leicester í botnsæti ensku deildarinnar og hafði ekki unnið deildarleik í tæpa þrjá mánuði. En þennan dag á síðasta ári vann Leicester 2-1 sigur á West Ham og markaði hann upphafið á ótrúlegum endaspretti liðsins það tímabilið.

Leicester vann sjö af síðustu níu leikjum sínum það sem eftir lifði tímabils og endaði í fjórtánda sæti með 41 stig. 22 af þeim stigum komu í apríl og maí.

Nigel Pearson bjargaði Leicester frá falli en samt var ákveðið að skipta um stjóra og var Claudio Ranieri ráðinn. Undir stjórn Ítalans hefur Leicester komið öllum á óvart og hvergi gefið eftir í toppbaráttunni frá fyrsta degi.

Á þessu ári hefur Leicester spilað 41 leik og tapað aðeins fjórum - fyrir Chelsea, Liverpool og tvívegis fyrir Arsenal. En liðið hefur fengið 91 stig á þessum tólf mánuðum en næst þar á eftir eru Tottenham og Arsenal með 73 stig hvort.

Manchester City fékk 72 stig, Chelsea og Manchester United 64 stig og Liverpool er svo í tíunda sæti með 53 stig.

Með þessu áframhaldi gæti Leicester tryggt sér enska meistaratitilinn með sigri á Old Trafford, heimavelli Manchester United, þann 1. maí. Þangað til mun Leicester spila við Sunderland, West Ham og Swansea en lærisveinar Ranieri leika svo gegn Everton og Chelsea í síðustu tveimur umferðunum.


Tengdar fréttir

Ranieri fékk ítalska pylsu á blaðamannafundi

Á blaðamannafundi hjá Leicester nýlega kom það til tals að slátrari í bænum væri að selja ítalska pylsu sem hann kallaði Ranieri, í höfuðið á ítalska þjálfara Leicester-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×