Vísir greindi frá málinu síðastliðið sumar; hundur að tegundinni Briard beit þriggja ára dreng í andlitið. Sauma þurfti þrjú spor í efri vör drengsins sem fór í sundur, auk þess sem hundurinn beit stærra stykki úr sömu vör.
Andrúmsloftið á Dalvík hefur verið lævi blandið allt síðan atvikið kom upp. Björn er nú búsettur á Spáni, og hann segir ekki koma til greina að lóga hundinum, málsatvik liggi ekki fyrir og þær forsendur dugi hvergi að hans mati. Hundurinn er sprelllifandi, tíkin Þvæla er nú í pössun í Reykjavík. Foreldrar drengsins, þau Jón Steingrímur Sæmundsson og Elíngunn Rut Sævarsdóttir líta málið ekki sömu augum og telja algerlega fráleitt að halda öðru fram en að hundurinn hafi bitið son sinn. Drengurinn er nú á batavegi, móðir hans segir menn meta það sem svo að lán í óláni hafi verið hversu ungur hann er, en fljótlega verður farið með hann til lýtalæknis og þá verður tekin ákvörðun um hvort hann fer í aðgerð fljótlega eða ekki.
Dalpay úr Dalvík
Bjarni Th. Bjarnason sveitarstjóri segir erfitt að tjá sig um málið sem slíkt, það hafi reynst erfitt. „Þetta eru persónuleg mál sem erfitt er að höndla og tilfinningar. Fólk hefur ríkar tilfinningar fyrir sínum dýrum,“ segir Bjarni – að ógleymdum börnunum. „Þetta var leiðinlegt og örugglega betra ef slíkt mál hefði aldrei komið upp en svona gerast hlutirnir. Það er bara þannig.“

Dalpay er enn með opna skrifstofu í Dalvík. Björn segir að hann sé að íhuga hvort hann flytji starfsemina alfarið úr plássinu, starfsmenn séu hvort sem er fæstir Dalvíkingar. Á skrifstofunni starfa sjö og alls starfa 17 hjá fyrirtækinu.
Rekinn af vettvangi á Fiskideginum
Björn er nú staddur á Spáni og hann segir málið allt hið erfiðasta og ekki laust við að hann sé niðurdreginn vegna þess hvernig allt þetta æxlaðist og fór. Björn segir að þeir bræður hafi á einhverjum tímapunkti verið að hugsa um að flytja skrifstofuna líka. „Þetta var núningur. Við vorum að lenda í allskonar veseni og leiðindum,“ segir Björn.
Þeir bræður eiga þrjá báta sem þeir hafa gert út frá Dalvík en létu flytja yfir á Sauðárkrók þar sem bátarnir voru við festar í vetur. Margir samverkandi þættir urðu til þess að þeir fluttu lögheimili fyrirtækisins, en þeir eru af gamalgrónum Dalvíkurættum.

Smábæjarbragur á Dalvík
„Það er pirringur í mér. Ég vill fá frið með mitt og vil fá að standa með höfuðið hátt. En, ég var að fá allskonar dónaskap og leiðindi, og þetta var bara einhver vitleysa. Það snuggaðist alveg sérstaklega í bróður mínum varðandi þetta. Það grípur mann einhver reiði og við fluttum félagið yfir á Ólafsfjörð. Oft svona smábæjarbragurinn á þessu. Í raun er ég ekki reiður lengur en ég nenni ekki að lenda í deilum.“

Þvælu ekki lógað
Þvæla er fjögurra ára Briard, mjög stór og loðinn hundur. Björn segir það fyrirliggjandi að Briard-hundar séu ljúfir. Hann segir að ekki hafi komið til greina að lóga Þvælu, en margir eru þeirrar skoðunar að það þurfi ekki einu sinni að ræða verði hundar uppvísir af því að bíta.
„Sú er hugmyndin, en það er rangt. Hundar bíta við sérstakar aðstæður, ef þeim finnst þeim vera ógnað. Ég er ekkert að neita því, þetta eru hundar, en hún er ekki lausagönguhundar, slapp út og fór til mömmu. Ég veit ekkert hvað gerðist, en vandinn er að þau hin vita það ekki heldur. Henni verður ekkert lógað af því að einhver heldur eitthvað.“
Ætlar að flytja til Spánar
Björn segist vera með það á stefnuskránni að flytja alfarið af landi brott og flytja til Spánar. Honum líkar ekki það sem hann segir „blóðlykt“ á Íslandi. Allir séu sekir þar til annað komi í ljós. Og enginn sé spámaður í sínu föðurlandi. Það skynjar hann sterkt á Dalvík. Hann kann vel við sig á Spáni. „Kannski er þetta eins hér, en ég skil ekki spænsku þannig að ég þarf ekki að láta þetta fara fyrir brjóstið á mér.“

Fer ekkert á milli mála að drengurinn var bitinn
Vísir ræddi jafnframt við foreldra piltsins og þau sjá þetta öðrum augum, sem von er. Þau segja að ekkert fari á milli mála að um hundsbit sé að ræða. Elíngunn segir að fyrir liggi læknisvottorð sem staðfestir að barnið hafi verið bitið. Hann var með tannaför um allt andlitið og yfir höfuðið.

„Þetta náttúrlega stenst ekki, það væri þá úr neðri vör væntanlega þegar börn detta. Hann hefði þurft að vera með skúffu en bitið er framan á vörunni. Og læknirinn segist gera staðfest að þetta sé ekki eftir fall, eða eggvopn. Það var hundur á svæðinu auk þess sem það voru börn vitni. En, hann vill ekki hlusta á það.“
Fjölskyldubæjardrama
Þau hjón draga ekki úr því að málið hafi reynst erfitt. „Þetta hefur verið hundleiðinlegt mál.“ Aðlar tengjast, eins og óhjákvæmilegt er í litlum bæ. Þannig er til dæmis að afi barnsins er ágætur vinur Björns og þannig má lengi telja. „Fjölskyldubæjardrama.“ Drengurinn hafi verið bitinn í júlí og það er ekki fyrr en eftir áramót sem bærinn fór að róast.

Lausaganga hunda en ekki barna bönnuð
Elíngunn segir reyndar ýmislegt í málinu sem pirri sig. Hún hafi verið sökuð um að vera vanhæf móðir, að leyfa drengnum að ganga lausum en það sé nú þannig að það sé lausaganga hunda sem sé bönnuð.
Hún segir að öll börnin í hverfinu hafi verið dauðhrædd við hundinn og hún fór fram á að hundurinn yrði ekki í pössun í raðhúsalengjunni en Björn býr í hinum enda bæjarins. „Mér fannst ég ekki ósanngjörn. En, þau reyndu að fela hundinn. Þetta endaði með því að mamma fór og ræddi við bæjarstjórann og fór fram á að hundurinn færi úr bænum. Lögreglan kom í sumar og þurfti að fjarlægja hundinn fyrir mig. Krakkarnir þorðu ekkert heim til sín. Og þá fór Björn með hann út í sveit.“
Elíngunn vill meina að Björn hafi verið einna skástur við að eiga í málinu, það voru hins vegar þeir sem honum tengdust sem tóku þessu óstinnt upp.

Drengurinn slapp ótrúlega vel
Foreldrarnir segja að það muni alltaf sjá á drengnum sem er þó óðum að jafna sig. Þeim var tjáð að það hafi verið lán í óláni að hann hafi verið þetta ungur þegar atvikið kom upp, sár hans gróa vel en fljótlega stendur til að fara með hann til lýtalæknis og þá verði tekin ákvörðun um það hvort ástæða er til að fara í aðgerð með hann, til að laga vörina. Jón segir að lýtalæknirinn hafi viljað fá hann til sín þegar ár væri liðið frá atburðinum.
„Hann vildi leyfa líkamanum að sjá um sem mest. Og það varð ótrúleg holdfylling í vörinni, en hann er með stórt ör og það er svo hart. Lýtalæknirinn vill reyna að laga það eitthvað og minnka lýtið,“ segir Jón Steingrímur og bætir því við að miðað við allt hafi sonur hans verið heppinn.
„Maður er hissa hvað hann hefur jafnað sig eftir þetta, líka andlega. Hann fær að stjórna því hvernig hann umgengst hunda. Honum var alltaf sagt að hundurinn umræddi væri svo góður og gerði ekki neitt.“