Fótbolti

Cruyff minnst með óvenjulegum hætti á landsleik í Amsterdam Arena í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Vruyff í landsleik í treyju númer 14.
Johan Vruyff í landsleik í treyju númer 14. Vísir/AFP
Johan Cruyff heitinn er án efa besti knattspyrnumaður Hollendinga fyrr og síðar og einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar. Hann átti frábæran feril og vann marga glæsilega sigra á sínum ferli þótt að hann hafi aldrei unnið gull með hollenska landsliðinu.

Johan Cruyff lést í gær eftir baráttu við krabbamein en hann var 68 ára gamall. Hollenska knattspyrnusambandið hefur kvatt félög í heimalandinu til að minnast Johan Cruyff á sinn hátt.

Hollenska knattspyrnusambandið mun sjálft nota óvenjulega aðferð til að minnast Johan Cruyff í vináttulandsleik Hollendinga og Frakka á Amsterdam Arena í kvöld.

Johan Cruyff spilaði alltaf í treyju númer fjórtán og munu landsliðsmenn Hollendinga og Frakka minnast þessa frábæra fótboltamanns með því að hætta leik í eina mínútu á fjórtándu mínútu leiksins.

Þetta er örugglega í fyrsta sinn sem slík minningastund fer fram í miðjum alþjóðlegum landsleik.

Samskonar minningarstund var á æfingaleik Feyenoord og Sparta Rotterdam á heimavelli Feyenoord í gær en Johan Cruyff spilaði einmitt sinn síðasta leik með Feyenoord.

Johan Cruyff lék stærsta hluta ferils síns með Ajax og Barcelona en spilaði síðasta árið á ferlinum með Feyenoord eftir að Ajax vildi ekki bjóða honum nýjan samning. Johan Cruyff hjálpaði þá Feyenoord að vinna sinn fyrsta titil í áratug.

Það er almennt búist við því að Amsterdam Arena heiti ekki Amsterdam Arena lengi heldur að leikvangurinn verði endurskírður Johan Cruyff Arena til heiðurs flottast fótboltamanni Ajax fyrr og síðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×