Fótbolti

Sjáðu Johan Cruyff skora tvö mörk á móti Íslandi fyrr rúmum 42 árum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hollenska knattspyrnugoðsögnin Johan Cruyff lést í gær eftir erfiða baráttu við krabbamein en Cruijff var konungur knattspyrnuheimsins á hápunkti ferils síns á áttunda áratugnum.

Íslenskir knattspyrnumenn fengu að kynnast snilli Cruyff haustið 1973 en þá var Ajax nýbúið að selja sinn langbesta mann til spænska stórliðsins Barcelona. Áður en hinn 26 ára gamli Cruyff flaug til Spánar þá lék hann tvo landsleiki við Ísland á einni viku.

Þetta voru einu landsleikir Johan Cruyffá móti Íslandi en hann skoraði í þeim fjögur mörk, tvö í hvorum. Cruyff skoraði aðeins fleiri mörk á móti einni annarri þjóð og það var á móti Lúxemborg (6 mörk í 3 landsleikjum).

Cruyff mætti Íslandi í fyrsta sinn 22. ágúst 1973 og skoraði þá tvö mörk í 5-0 sigri. Hann skoraði síðan önnur tvö mörk í 8-1 sigri viku síðar en báðir leikirnir voru í undankeppni HM 1974.  Það er hægt að sjá myndband með mörkunum úr þessum leik í spilarananum hér fyrir ofan.

Í 5-0 sigrinum lagði Cruyff einnig upp fyrsta mark leiksins fyrir Willem van Hanegem á 6. mínútu leiksins.

Cruyff skoraði annað markið með þrumuskoti frá vítateigslínu á 8. mínútu leiksins. Hann skoraði síðan annað mark í seinni hálfleiknum og þar má einnig sjá hann taka hinn fræga Cruyff-snúning sem sést einnig vel hér fyrir neðan.

Hollendingar unnu riðilinn í undankeppni HM 1974 og fóru alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir urðu reyndar að sætta sig við 2-1 tap fyrir Vestur-Þjóðverjum þrátt fyrir að hafa komist yfir á fyrstu mínútu leiksins eftir að Johan Cruyff fiskaði víti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×