Innlent

Nesfiskur ætlar að breyta verklagi vegna gasbyssunnar: "Við erum búin að nota þetta í fjölda ára til að fæla frá fugla“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fyrirtækið Nesfiskur hyggst breyta verkferlum sínum í kjölfar mikils viðbúnaðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurnesjum eftir að skothvellir heyrðust frá fiskhjöllum Nesfisks í Garði. Grunur lék á um tíma að byssumaður gengi laus en síðar kom í ljós að um var að ræða hvelli frá gasbyssum sem notaðar höfðu verið til að fæla frá vargfugl.

Guðlaugur Kristófersson, verkstjóri hjá Nesfiski, segir að sér hafi verið nokkuð brugðið þegar hann mætti til vinnu í morgun.

Guðlaugur segir skiljanlegt að hvellurinn sem kom frá gasbyssunni hafi misskilist sem alvöru byssa. Vísir/Vilhelm
„Þegar ég kem þarna þá er ég að koma úr Reykjavík og var þá búinn að fá símtal um það að gasbyssan hjá okkur hefði verið að valda einhverju ónæði. Þegar ég kem þá er sérsveitin að ganga frá og pakka saman og ég gef mig þarna fram við lögreglu og segi þeim hvers kyns er með þessa byssu okkar."

Hann segist aðspurður fyrirtækið hafa notað þessa aðferð í áratugi. „Við erum búin að nota þetta í fjölda ára til að fæla frá fugla. Það gefur frá sér hvell svipað og byssuhvellur til þess að fæla frá fuglana og vel skiljanlegt að það geti misskilist sem alvöru byssa,“ segir Guðlaugur sem kannaðist ekki að kvartanir hefðu áður borist vegna þessa fyrirkomulags.

Guðlaugur segir næstu skref að ræða við lögregluna og hvort fyrirtækið þurfi að láta hana vita áður en gasbyssan er notuð.  „Ég á eftir að ræða við lögregluna um þetta. Við munum líklega breyta hjá okkur verkferlum varðandi það hvort við þurfum að tilkynna það og annað slíkt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×