Arna Gná flutti til Strassborgar fyrir tveimur árum með manni sínum, Róbert Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, og tveimur sonum.
„Okkur líður mjög vel hér en það kom mér á óvart þegar við fluttum hingað hvað munurinn er mikill á Íslendingum og Frökkum. Ég flokka mig sem Skandinava, sem í Suður-Evrópu þykja frekar lokaðir og stífir en mér finnst þvert á móti við frekar opin og frjáls en Frakkar fastir í reglum. Þeir elska skriffinnsku meðan við hugsum, æ, við reddum þessu og erum sveigjanleg.
Ég er því dálítið á tánum og að finna út hvernig ég eigi að vera. En ég er auðvitað útlendingur hér en hef ekki prófað að vera útlendingur á Íslandi, kannski er það bara eins, og líf útlendings er línudans hvar sem er í heiminum. Mér finnst það áhugavert umhugsunarefni nú þegar til Vesturlanda flykkist fólk frá öðrum menningarheimi.“

„Þetta var rétt fyrir jól og fyrsta daginn klippti hann út jólatré. Þegar ég kom að sækja hann var mér sýnt hvað þetta væri hryllilega lélegt hjá honum, ég yrði að fara heim og kenna honum að klippa. Annað verkefni var að kenna honum að lita í litabók og ef hann litaði pínulítið út fyrir strik fékk hann fýlukarl í bókina. Þarna fékk ég kúltúrsjokk því okkur finnst allt æðislegt sem börnin gera.“
Sýningin hennar Örnu Gnáar stendur til 24. mars. Hún segir ótrúlega marga hafa mætt á opnun hennar og þrjú verk hafi selst. „Það var gaman að sjá hvað áhuginn var mikill. Gestunum fannst svo merkilegt að ég væri frá Íslandi og töldu sig bara bara sjá íslenskt yfirbragð á myndunum.“