Fótbolti

Kuyt: Við erum aðlátursefni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dirk Kuyt, fyrirliði Feyenoord í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta, segir sitt lið vera aðhlátursefni í deildinni.

Feyenoord var í góðum málum framan af leiktíð og í baráttu um hollenska meistaratitilinn, en er nú búið að tapa sjö leikum í röð og er komið niður í sjötta sæti deildarinnar, 20 stigum frá toppliði PSV.

Feyenoord vann síðast leik fyrir tveimur mánuðum þegar liðið lagði Heracles, 3-0, og fyrrverandi Liverpool-framherjinn er brjálaður vegna gengi sinna manna.

„Sem fyrirliði er ég orðinn þreyttur á þessum tapleikjum. Ég get ímyndað mér að fleiri eru orðnir þreyttir á því að tapa leik eftir leik,“ segir Kuyt í viðtali við Fox Sports.

„Fjölmiðlarnir geta kennt hverjum sem er um en við erum með leikmenn sem eiga að leggja sig fram. Þetta er okkur að kenna.“

Þjálfari Feyenoord er Giovanni van Bronckhorst, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, hefur eðlilega verið gagnrýndur fyrir frammistöðu liðsins að undanförnu en Kuyt segir hann ekki ábyrgan.

„Við erum með frábæran þjálfara sem gerir allt sem hann getur í hverri viku til að undirbúa okkur,“ segir hann. „Úrslitin í síðustu leikjum eru leikmönnunum að kenna og engum öðrum. Við erum aðhlátursefni,“ segir Dirk Kuyt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×