Bandaríski markvörðurinn Tim Howard gæti verið á heimleið eftir tímabilið. Þetta kemur fram í frétt Daily Mail.
Howard hefur verið í herbúðum Everton frá árinu 2006 og er leikjahæsti leikmaður liðsins í sögu úrvalsdeildarinnar. Howard hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar í vetur og svo gæti farið að hann snúi aftur til heimalandsins fyrr en áætlað var.
Hinn 36 ára gamli Howard hefur verið orðaður við lið Colorado Rapids í MLS-deildinni í Bandaríkjunum en Everton gæti leyft honum að fara á frjálsri sölu að tímabilinu loknu, jafnvel þótt samningur hans renni ekki út fyrr en 2018.
Howard er sem stendur meiddur á hné og missti af þeim sökum af deildarleikjunum gegn Newcastle United og Stoke City.
Spánverjinn Joel Robles stóð í marki Everton í þessum leikjum og hélt hreinu í þeim báðum og því er óvíst hvort Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Everton, taki Howard beint inn í byrjunarliðið þegar hann kemur aftur eða haldi tryggð við Robles.
Howard gæti snúið aftur til Bandaríkjanna eftir tímabilið
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
