Innlent

Tjölduðu í 30 gráðu frosti: „Eins og að draga sleða í sykri“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einar Torfi Finnsson og John Bigham í leiðangri á Gunnbjörnsfjall, hæsta fjall Grænlands.
Einar Torfi Finnsson og John Bigham í leiðangri á Gunnbjörnsfjall, hæsta fjall Grænlands. Mynd/Íslenskir fjallaleiðsögumenn
Reikna er með því að leiðangri Einars Torfa Finnssonar, leiðsögumanns og eins eigenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna, á Suðurpólinn ljúki síðdegis á morgun. Einar Torfi fer fyrir fjögurra manna hópi sem verið hefur á göngu frá því síðari hluta nóvember.

Á bloggsíðu sem hópurinn heldur úti kemur fram að gærdagurinn hafi verið sérstaklega kaldur.

„Grímurnar okkar frusu fastar við andlitið en venjulega og við fundum á höndum okkar hve kalt var,“ segir Einar á bloggsíðunni. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafi þeir náð að ferðast rúma 22 kílómetra en dagurinn hafi verið einn sá erfiðasti á tveggja mánaða ferðalagi.

Sjá einnig:Grét og hló þegar hún kom á Suðurpólinn

Sjálfsmynd af Einari í tjaldinu á göngunni.Mynd/Bloggsíða hópsins
„Þegar við tjölduðum var 30 gráðu frost og tíu hnúta vindur (um 5 m/s). Aðstæður tl að skíða voru hrikalegar. Þetta var eins og að draga sleða í sykri,“ segir Einar Torfi. Hann hefur verið leiðsögumaður frá 1984. Heildarleiðin á Suðurpólinn er alls 1130 kílómetrar með 2.835 metra hækkun.

Einar Torfi er leiðsögumaður í hópnum en nýsjálensk ferðaskrifstofa skipulagði leiðangurinn og falaðist eftir þjónustu Íslenskra fjallaleiðsögumanna.

„Það var leitað til okkar vegna þeirrar reynslu sem við höfum. Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa lengi boðið upp á gönguskíðaleiðangra yfir Sprengisand og Vatnajökul og yfir Grænlandsjökul. Við erum núna að bjóða sjálfir upp á leiðangra á Norður- og Suðurpólinn, bæði síðustu gráðuna og alla leið,“ sagði Björgvin Hilmarsson, leiðsögumaður og umsjónarmaður leiðangra, í viðtali við Fréttablaðið á Þorkláksmessu.


Tengdar fréttir

100 ára gamalt viskí finnst á Suðurpólnum

Vískíflöskur sem tilheyrðu landkönnuðinum Ernest Shackleton hafa fundist á Suðurpólnum þar sem þær hafa verið „geymdar á ís“ í rúma öld. Hópur sem vissi af flöskunum sem skildar voru eftir grafnar undir kofa sem Shackleton hafði komið sér upp hefur nú náð í þær. Magnið kom þeim hinsvegar á óvart því fyrirfram var talið að um örfáar flöskur væri að ræða. Þegar hópurinn gróf undir gólfi kofans komu hinsvegar í ljós fimm kassar af vískíi og tveir af brandí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×