Innlent

Bláa lónið varar ferða­menn við ó­prúttnum leigu­bíl­stjórum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Skiltið sýnir hvert eðlilegt verðlag er fyrir hin ýmsu ferðalög.
Skiltið sýnir hvert eðlilegt verðlag er fyrir hin ýmsu ferðalög.

Búið er að setja upp skilti við Bláa lónið þar sem ferðamenn eru varaðir við óprúttnum leigubílstjórum. Á skiltinu stendur meðal annars hvert eðlilegt verð er fyrir ferð til Reykjavíkur eða út á flugvöll.

Mikið hefur verið fjallað um ástandið á íslenskum leigubílamarkaði á árinu, en meðal annars hafa margar sögur komið upp um að okrað sé á ferðamönnum og þeim neitað um far sé túrinn of stuttur.

Þá hefur ástandinu í leigubílaröðinni á Keflavíkurflugvelli verið líkt við villta vestrið. Lögreglan fór í eftirlit þangað í gær.

Á bílastæðinu við Bláa lónið stendur nú skilti með upplýsingum um eðlilegt verðlag, og eru ferðamenn beðnir um að athuga alltaf hvort um sé að ræða leigubíl með eðlilega skráningu.

„Athugið að verðin velta á stærð bílsins og lengd ferðalags. Leitið að bílum á vegum skráðra fyrirtækja eins og Hreyfils eða Aðalstöðvarinnar,“ segir á skiltinu.

„Gangið burt ef enginn mælir er í bílnum eða startgjaldið alltof hátt.“

Skiltið við bílastæði Bláa lónsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×