Lífið

Bíllaus í borginni: Deila fjórar með sér bílnum

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Bílaklúbburinn Græni hlunkurinn.
Bílaklúbburinn Græni hlunkurinn. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er búin að vera alveg bíllaus, eða frjáls, í þrjú ár en var mikið á hjóli áður,“ segir Margrét Marteinsdóttir. „Þetta byrjaði þannig að ég fór að skilja bílinn eftir heima, hjóla meira og fór í leiðinni að skipuleggja lífið öðruvísi. Núna skipulegg ég innkaupin miklu betur og nýti tímann til þess að gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Margrét.

Hún tók þó eftir að gott væri að hafa bíl til umráða stundum án þess þó að að standa í því að vera ein að reka bíl. Því brá hún á það ráð í vor að leita að bílavinum sem væru í sömu hugleiðingum. Fyrir tveimur mánuðum tók hún í félagi við þrjár aðrar, þær Margréti Kristínu Blöndal, Rósu Birgittu Ísfeld og Sigríði Ástu Árnadóttur, bíl á rekstrarleigu.

Bílnum deila þær svo á milli sín. „Við erum með bílafélagið Græni hlunkurinn en nafnið var valið af því liturinn á bílnum er eins og á grænum frostpinna. Við fáum bílinn fjóra daga í senn hver og svo rúllar þetta bara.“

Fáir ókostir en kostirnir margir

Fyrir bílinn greiða þær ellefu þúsund á mánuði hver en inni í því er allur kostnaður, svo sem tryggingar og allar viðgerðir komi til þeirra. „Við erum með þetta í Excel-skjali og svo erum við með Facebook- hóp líka. Þar ætlum við að byrja setja inn tilkynningar ef sú sem er með bílinn er að fara í Sorpu eða Bónus og einhver vill fljóta með,“ segir Margrét sem er himinlifandi með fyrirkomulagið.

„Svo er miklu meiri spenna þegar maður er á bílnum og maður nýtir það vel. Þá er hátíð í bæ.“

Margrét segir fáa ókosti við bílleysið en kostirnir séu margir. „Ég tek mjög sjaldan leigubíl en nota strætó, hjóla eða labba. Ég slepp við líkmasræktarstöðvarnar því samgöngur eru mín líkamsrækt.“

Margrét mælir sérstaklega með því að fólk deili bíl með öðrum. Það sé umhverfisvænt og gott fyrir budduna. „Þetta er eitthvað sem við þurfum öll að hugsa um að gera á ákveðnum tímapunkti. Við erum að drepa okkur á neyslu. Jörðin þolir þetta ekki og þar með ekki við. Það er stóra málið. Þetta er ekki spurning um einhvern svalan lífsstíl heldur að taka ábyrgð og reyna sitt til að gera líf barna framtíðarinnar bærilegt. Bara við getum séð til þess að það verði lífvænlegt á jörðinni. Ekki næsta kynslóð. Bara við. Núna.“

Fjölskyldan ferðast mikið með strætó en líka hjólandi og fótgangandi. Fréttablaðið/
Fóru hringinn með strætó og rútum

„Mörgum finnst við vera alveg klikkuð að vera ekki á bíl, fimm manna fjölskylda geti ekki verið bíllaus,“ segir Eva Björk Benediktsdóttir. Fjölskylda hennar, sem samanstendur af henni sjálfri, eiginmanni hennar og þremur börnum þeirra; 7,10 og 17 ára, hefur verið bíllaus í fjögur og hálft ár.

Fjölskyldan flutti heim frá Danmörku vorið 2011 þar sem þau höfðu farið ferða sinna án þess að notast við bíl í nokkurn tíma. „Við ákváðum að láta reyna á þetta og sjá hvort þetta gengi ekki hérna í Reykjavíkinni. Við höfum ekki séð eftir því,“ segir Eva.

Fjölskyldan fer fótgang­andi, hjólandi eða notar almennings­samgöngur til þess að komast leiðar sinnar og fær stundum lánaðan bíl hjá foreldrum Evu.

Eva segir að skipulag skipti miklu máli en auk þess hjálpi það að hafa góða matvörubúð rétt hjá en fjölskyldan býr í Árbænum. Sjálf er hún í námi á Bifröst en maðurinn hennar vinnur í Skeifunni. „Hann hjólar yfir sumarið og tekur svo strætó yfirleitt yfir veturinn. Ég var kannski ekki að gera mér þetta auðveldara með því að velja mér nám á Bifröst en ég hef fengið að fara með öðrum nemendum upp eftir,“ segir hún.

„Stundum fáum við far hjá foreldrum mínum sem eru á tveimur bílum. Ef ég þarf að kaupa mikið inn þá fæ ég oft að fara með mömmu í Bónus ef hún er að fara. Reglan er síðan þannig hjá okkur að börnin mega vera í þeim frístundum sem þau vilja en ef það er utan hverfisins þá þurfa þau að vera nógu stór til að koma sér þangað sjálf,“ segir hún og bætir við: „Reyndar er ein undantekning á því, en stelpan okkar sem er sjö ára vildi fara æfa ballett sem er rétt hjá Smáralind. Við hjálpum henni að komast þangað.“

Spara bæði tíma og peninga

Fjölskyldan lætur bílleysið ekki aftra sér frá því að ferðast um landið. „Síðasta sumar fórum við í samfloti með foreldrum mínum sem eiga tvo bíla. Sumarið á undan fórum við hringinn með strætó og rútum. Það er ekki hægt að fara allan hringinn með strætó þannig að við tókum rútu þar sem strætó fer ekki. Þetta var mjög skemmtilegt ferðalag og fríið byrjaði einhvern veginn um leið og maður settist upp í strætóinn. Krökkunum fannst þetta frábært, við höfðum meiri tíma til að sinna þeim, gátum verið að spila og svona sem við hefðum ekki getað ef við værum í bíl að keyra.“

Eva segir þau sjaldan sakna þess að eiga ekki bíl en það sé þó helst þegar veður er vont. Þau spari mikið á því að reka ekki bíl og hafi meiri tíma. „Það kemur upp hjá manni ef það er mikil rigning og rok eða mjög kalt að það væri gott að setjast upp í heitan bíl. En maður sleppur við að skafa og bíllinn er líka yfirleitt ískaldur á morgnana.“

Guðmundur Kristján. Fréttablaðið/GVA
Borgarkynslóðin

„Það er dýrt að reka bíl og þeir menga. Mér fannst áhugavert að sjá hvort hægt væri að lifa bíllausum lífsstíl í bíladrifinni borg eins og Reykjavík,“ segir Guðmundur Kristján Jónsson skipulagsfræðingur. Hann ákvað í byrjun þessa árs að selja bílinn sinn. Eftir að hann stofnaði ráðgjafarfyrirtækið Borgarbrag er hann með vistvænan fyrirtækisbíl sem hann notar þó mest megnis vinnutengt.

Guðmundur segir vel hægt að vera án bíls í Reykjavík. „Það er hægt en er erfitt. Almennings­sam­göngur eru ekki nógu tíðar. Hjólareiða­samgöngur hafa stórbatnað en eru ekki orðnar alveg nógu góðar. Svo er borgin einfaldlega of dreifð,“ segir Guðmundur.

Margir finna bíllausum lífsstíl það helst til foráttu að almennings­sam­göngur, eins og strætisvagnakerfi borgar­innar, séu ekki nógu góðar. „Strætókerfið er mun betra heldur en fólk vill vera láta, en það er aðallega um helgar og seint á kvöldin sem ferðunum fækkar.“

Guðmundur segir að bæta þurfi aðgengi fyrir þá sem kjósa bílleysi. Margt hafi batnað á undanförnum árum en þó sé margt sem þarf að bæta. „Það þarf að fjölga hjólastígum, hjólandi fólk þarf að fá meira vægi í umferðinni. Þar sem eru hjólastígar er verið að leggja þvers og kruss yfir þá.

Svo þurfa fleiri að taka þetta skref heilt yfir til þess að almenningssamgöngur komi meira til móts við þennan hóp. Svo er auðvitað lítil hjólreiðamenning þannig að margt hjólreiðafólk veit ekki hvernig það á að haga sér í umferðinni. En þetta er allt á réttri leið.“

Guðmundur segist þó halda að mun fleiri vilji vera án bíls nú en áður. „Það er að koma upp borgarkynslóð. Fólk sem vill ekki eiga bíl og hefur ekki tekið bílpróf. Það er orðið mun algengara.“

Guðmundur reynir að fara flestra sinna ferða á hjóli og segir það lítið mál yfir vetrarmánuðina. „Það eru bara nagladekk á hjólið og góð úlpa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.