Innlent

Segir áhuga forsætisráðherra á gömlum húsum hafa óæskileg áhrif á lagasetningu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Guðmundur Steingrímsson vill að þingmenn vari sig á gerræðistilburðum forsætisráðherra.
Guðmundur Steingrímsson vill að þingmenn vari sig á gerræðistilburðum forsætisráðherra. vísir/valli
„Mér finnst áhugi hæstvirts forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á gömlum húsum og menningarverðmætum hafa óæskileg og hættuleg áhrif á lagasetningu,“ sagði Guðmundur Steingrímsson í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á þingfundi fyrr í dag.

Vísaði hann til þess að undir lok síðasta þings hafi verið samþykktar breytingar á löggjöf um verndarsvæði í byggð þar sem að forsætisráðherra hafi „nánast verið falið alræðisvald um hvað skal vernda“. Einnig sé nú verið að fjalla um væntanlegt frumvarp með breytingum á lögum um menningarminjar en þar verður heimild fyrir ráðherra til að taka lönd og réttindi eignarnámi.

„Ég deili áhuga forsætisráðherra á gömlum húsum en umgjörð í kringum svona mál verður auðvitað að vera í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð. Satt best að segja þá klingja allar viðvörunarbjöllur í mínum huga. Gæti forsætisráðherra ákveðið að taka alla byggðina í Flatey eignarnámi? Ég vil hvetja Alþingi til að vera á varðbergi gagnvart slíkum gerræðisháttum á þessu sviði,“ sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×