Lífið

Keppendur í Ungfrú Ísland selja af sér spjarirnar í góðgerðaskyni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Frá vinstri: Bryndís Rósa, Diljá Helgadóttir og Andrea Sigurðardóttir. Á mynd vantar Elísu Gróu Steinþórsdóttur.
Frá vinstri: Bryndís Rósa, Diljá Helgadóttir og Andrea Sigurðardóttir. Á mynd vantar Elísu Gróu Steinþórsdóttur. Mynd/Diljá
„Við völdum þetta málefni af því að ein stelpa í hópnum á bróður sem fæddist sem fyrirburi. Þetta er rosalega viðkvæmt og okkur finnst að það sé ekki nógu mikið fjallað um þetta og það góða starf sem Barnaspítali Hringsins er að vinna,“ segir Diljá Helgadóttir, þátttakandi í Ungfrú Ísland. Hún og þrír aðrir keppendur standa fyrir fatamarkaði í Hlíðarsmára 19 í dag til styrktar Vökudeild Barnaspítala Hringsins.

„Við vonumst eftir því að safna sem mestum pening. Og við ætlum einnig að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu.“

Viðburðinn má nálgast hér.

Hluti af þátttöku í Ungfrú Ísland í ár eru góðgerðarstörf af ýmsu tagi en Diljá segir keppendur hafa fengið fullt frelsi varðandi framkvæmd þess og val á viðfangsefni til að styrkja. Í viðburðinum fyrir fatamarkaðinn á Facebook segir: „Skjólstæðingar vökudeildar eru fyrirburar og aðrir veikir nýburar. Einnig ungbörn upp að þriggja mánaða aldri, sem þurfa á gjörgæslumeðferð að halda. Um 40% innlagðra barna eru fyrirburar, þ.e. börn sem fædd eru fyrir 37 vikna meðgöngu. Vökudeild Barnaspítalans hefur unnið mikilvægt og framúrskarandi starf sem mætti fjalla meira um í fjölmiðlum.“

Gaman að geta selt fötin fyrir gott málefni

„Við verðum með föt af okkur, skart, skó og allskonar aukahluti. Við erum algjörar stelpur þannig að við eigum alveg fullt af fötum. Það verður bara gaman að geta selt fötin okkar til styrktar góðu málefni.“ Auk þessa verður happdrætti; fá allir sem versla happdrættismiða og dregið verður síðar um kvöldið.

Með Diljá í hópi eru þær Bryndís Rósa Sigurpálsdóttir, Andrea Sigurðardóttir og Elísa Gróa Steinþórsdóttir. Diljá segir vinkonurnar allar ólíkar; í ólíkum stærðum og með ólíkan stíl. „Þannig að ég vona bara að það verði eitthvað fyrir alla.“

Verði verður haldið í lágmarki en Diljá nefnir verðbilið 500 til 2000 krónur. „Við viljum alls ekki hafa þetta of hátt. Og í staðinn fyrir að hafa prútt og svoleiðis ætlum við frekar að hafa föst verð. Þetta er að sjálfsögðu allt fyrir gott málefni.“

Stelpurnar hafa unnið hörðum höndum að því að gera allt klárt en fatamarkaðurinn opnar klukkan sjö í kvöld og verður í Sjálfstæðissalnum Hlíðarsmára 19 í Kópavogi.


Tengdar fréttir

Ungfrú Ísland: Stúlkurnar eru spenntar að taka þátt

Ungfrú Ísland verður haldin í hörpu 5. september. Undirbúningi hefur verið breytt til að búa stúlkurnar betur undir stærri keppnir erlendis. Meðal áhersluatriða í undirbúningi eru efling sjálfsmyndar og kennsla í framkomi í fjölmiðluum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×