Lífið

Allir eru bolir inn við beinið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Viðmælendur Fréttablaðsins voru allir sammála um að það sé bolalegt að standa í röð og bíða eftir ókeypis kleinuhringjum.
Viðmælendur Fréttablaðsins voru allir sammála um að það sé bolalegt að standa í röð og bíða eftir ókeypis kleinuhringjum. Vísir/Pjetur
Að bíða í röð þegar erlend fyrirtæki opna útibú hér á landi, að grilla kótilettur við öll tækifæri og að elska Eurovision skilyrðislaust eru meðal einkenna bolsins. Hið margþætta slanguryrði „bolurinn“ hefur verið notað yfir tiltekna manngerð undanfarin ár og má segja að orðið sé hægt og rólega að festa sig í sessi í vitund almennings. Undanfarna daga hefur það meðal annars verið notað yfir þá sem biðu í hinni frægu röð fyrir utan Dunkin' Donuts til þess að fá ókeypis kleinuhringi eftir bandarískri uppskrift.

Bolurinn er nefnilega hagsýnn, eins og blaðamaður komst að þegar hann ræddi við þá sem hafa stuðlað að því að þetta slanguryrði er hreinlega að verða að nokkuð vel skilgreindu hugtaki. En til þess að komast að raunverulegri merkingu orðsins er ekki hægt annað en að leita aftur í upprunann og þá er slegið á þráðinn til Björgvins nokkurs Halldórssonar, sem söng manna fyrstur um bolinn.

Björgvin Halldórsson
„The ordinary Joe“

Upphaf slanguryrðisins má rekja til lags Brimklóar sem ber titilinn Bolur inn við bein, samið af þeim Björgvin Halldórssyni (höfundi hugtaksins) og Jónasi Friðriki Guðnasyni. „Þetta fæddist bara í stúdíóinu,“ segir Björgvin um slangrið og heldur áfram: „Þetta er staðfært úr bandarísku og evrópsku þjóðfélagi. Þetta nær yfir „The Ordinary Joe eða Joe Smo“, eins og sagt er í Bandaríkjunum. Bolurinn er bara venjulegt fólk, límið sem heldur samfélaginu saman og er alls ekki meint í niðrandi merkingu.“

Björgvin segir enn fremur að bolur geti haft margþætta merkingu og náð yfir mismunandi hópa fólks. 

En hvaðan kemur orðið bolur?

„Segjum að það sé verið að opna nýtt fyrirtæki og bolir gefnir í tilefni af því. Fólk sem fer þangað og fær frían bol og gengur í honum stolt um bæinn; það er bolurinn. Þaðan kemur þetta,“ svarar Björgvin.

Hinar mörgu birtingarmyndir bolsins

Henry Birgir Gunnarsson íþróttafréttamaður hefur verið duglegur að halda slanguryrðinu á lofti undanfarin ár. Henry hefur meðal annars staðið fyrir hinum árlega boladegi á Twitter, þar sem Íslendingar reyna að fá svör frá þekktum stjörnum í gegnum samskiptamiðilinn. Henry segir að birtingarmyndir bolsins séu margar; að hægt sé að tala um „bolahegðun“ við hinar ýmsu aðstæður.

„Í grunninn er þessi takmarkalausa auðmýkt Íslendingsins til þess að vera ofboðslegur bolur alveg mögnuð. Við hikum ekki við að standa í röð eftir kleinuhringjum eða McDonalds. Og við höfum ekkert betra að gera en að hanga í „Bolalindinni“, því okkur dettur ekkert betra í hug. Við megum varla sjá nokkurn einasta mann sem er frægur án þess að taka mynd af viðkomandi og segja frá því,“ útskýrir Henry.

Henry Birgir Gunnarsson.
Henry telur síðan upp nokkrar tegundir bolsins: „Við erum með sólarlandabolinn, sem notar appið Instaweather í gríð og erg, þú ert ekki sólarlandabolur nema þú „instaveðrir“ þig í gang. Svo er það bolurinn á samfélagsmiðlunum. Þar fær bolurinn rödd og áhorfendur og getur bolað sig í drasl. Við sjáum til dæmis fólk sem er eða var dálítið þekkt í samfélaginu og þykir kannski þjóðfélagslega þenkjandi. Þannig einstaklingar eru duglegir við að koma út skoðunum sínum um alla mögulega hluti til þess að sýna hversu klárir þeir eru. Og síðan mætir bolurinn í klappliðið og „lækar“ allt sem þessir einstaklingar segja á Facebook.“

Bolurinn heldur með Liverpool

Henry Birgir tiltekur fleiri tegundir af bolnum. Hann segir hinn hefðbundna bol yfirleitt halda með Liverpool í ensku knattspyrnunni. „Hinn týpíski bolur talar um Robbie Fowler sem guð og er með mynd af Kop-stúkunni í „cover-mynd“ á Facebook. Hann tekur leikina alvarlegar en nokkur annar og er fljótur að skipta um prófælmynd eftir því hver skorar fyrir félagið. Auðvitað er United-bolurinn og Arsenal-bolurinn líka sterkir, en þeir taka leikina ekki eins alvarlega og Liverpool-bolurinn.

Undir þessi orð tekur Baldur Beck, fjölmiðlamaður og vinur Henrys. Hann hefur einnig verið duglegur að halda slanguryrðinu á lofti í gegnum tíðina. „Það er ekki spurning að hinn týpíski bolur heldur með Liverpool.“ Baldur tiltekur fleiri atriði sem einkenna bolinn. „Hann hefur rosalega gaman af því að hringja inn í útvarpið. Hann hringir inn og tekur „debatt“ við þáttastjórnendur. Bolurinn fer líka til Benidorm, á selfí-stöng og grillar mikið.“

Bolur inn við beinið

Bæði Baldur og Henry segjast vera bolir inn við beinið. „Allir eru bolir að einhverju leyti,“ segir Baldur og bætir við hlæjandi: „Það eru líklega allir Íslendingar bolir nema kannski Megas.“ Þeir félagar eru sammála um að eitt skilji þá frá hinum hefðbundna bol, eitthvað sem þeir öfunda hann af. „Hinn hefðbundni bolur veit ekki af því að hann er bolur. Það er snilldin,“ útskýrir Henry.

Á samfélagsmiðlum má sjá marga nota slanguryrðið yfir sína eigin hegðun. „Já, þetta fer í einhvern hring, ef menn vita að þeir eru bolir og eru viljandi að bola. Það er allt annað en að gera þetta ómeðvitað. Meðvitaði bolurinn getur leikið sér með þetta. Hann getur búið til aðstæður þar sem hann getur leikið sér með þetta og kitlað bolinn í sjálfum sér,“ útskýrir Henry.

Hann segir enn fremur að notkun þeirra félaga og annarra á hugtakinu sé líklega einhver leið til að skilgreina samfélag sitt.

„Þetta snýst um að skilja þá sem eru í kringum mann. Þetta er svolítið Seinfeld-legt, að pæla svona mikið í hjarðhegðun og fleiru.“

En báðir taka það skýrt fram að þeir séu ekki að setja sig á æðra plan en almenning, eiginlega þvert á móti. Báðir segjast öfunda hinn hefðbundna bol.

Lilja Katrín Gunnarsdóttir.
Boladrottningin

Lilja Katrín Gunnarsdóttir blaðamaður hefur einnig verið dugleg að nota slanguryrðið og titlar sig sem „Queen of bols“, eða Boladrottninguna. Hún er ósammála Henry og Baldri, segir boli alveg geta verið meðvitaða um bolinn í sjálfum sér.

„Til dæmis er ég dugleg að taka myndir af mér með frægu fólki á borð við Birgittu Haukdal og Stebba Hilmars. En vissulega eru sumir helbolaðir og átta sig ekki á því. En það er bara mjög gott. Það er engin skömm að því að vera bolur.“

Hún tekur undir að allir séu bolir inn við bein, eins og segir í textanum.

„Við erum smáþjóð og smáborgarar. Fólk á bara að taka sínum innri bol fagnandi. Bolurinn elskar til dæmis þegar gítarinn er rifinn upp í partíi og að sjálfsögðu er Stál og hnífur á lagalistanum. Bolurinn grillar hvenær sem er. Og helst kótilettur í Bónus-marineringu. Bolurinn er líka hamingjusamastur þegar hann fær eitthvað frítt; hvort sem það eru pylsur, blöðrur eða buff. Bolurinn sýnir vissulega af sér hjarðhegðun en syndir líka á móti straumnum. Hann brjálast þegar Reykjavík síðdegis seinkar um klukkutíma og fussar og sveiar ef Domino's breytir matseðlinum. Því bolurinn vill ekki breytingar.“


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.