Erlent

Halló jörð, heyrir þú í mér?

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Geimfarið Philae séð frá geimfarinu Rosetta.
Geimfarið Philae séð frá geimfarinu Rosetta. Fréttablaðið/AFP
Könnunarfarið Philae, sem er fyrsta geimfarið til að lenda á halastjörnu, hefur vaknað til lífsins og sent skilaboð til jarðar.

Philae er lendingarhluti geimfarsins Rosetta sem var skotið á loft árið 2004. Geimfarið hafði það markmið að lenda á halastjörnunni 67P. Evrópska geimferðastofnunin ESA hefur umsjón með verkefninu.

Eftir langa ferð um vetrarbrautina og meðal annars tvær hringferðir um Mars lenti könnunarfarið Philae á halastjörnunni þann 12. nóvember í fyrra.

Philae er knúið með sólarrafhlöðum, en eftir 60 tíma veru á halastjörnunni gáfust rafhlöðurnar upp þar sem farið var á myrku hlið loftsteinsins.

Í gær vaknaði Philae til lífsins þar sem halastjarnan hefur færst nær sólu. Farið heilsaði jarðarbúum á Twitter-síðu sinni með skilaboðunum „Halló jörð! Heyrir þú í mér?“

Verkefnastjóri Philae, Stephan Ulamec, segir að farið sé við kjöraðstæður og að allt gangi vel. Nú sé beðið eftir að farið hafi aftur samband en þegar býr farið yfir miklum gögnum um eðli halastjörnunnar.

Könnunarfarið hefur það að markmiði að safna gögnum um ferð halastjörnunnar, efnasamsetningu hennar, hitastig og fleira. Forgangsverkefni Philae þessa stundina verður að bora eftir efnasamböndum úr jörðu og greina þau. Vísindamenn vonast til að rafmagnið sem Philae hefur safnað að svo stöddu dugi til þessa verkefnis.

Halastjarnan 67P, einnig þekkt sem Churyumov–Gerasimenko, er 4,3 kílómetra löng og 4,1 kílómetri á breiddina. Stjarnan, sem er sex og hálft ár að ferðast um sporbaug sinn um sólu, var uppgötvuð árið 1969 af sovésku vísindamönnunum Klim Ivanovych Churyumov og Svetlana Ivanovna Gerasimenko en þaðan dregur stjarnan nafn sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×