Lífið

Ástarsorg og sjálfsvorkunn er ákveðið þema

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hjalti Jón, Sindri og Katrín Helga eru í hljómsveitinni Kriki sem gaf út sitt fyrsta lag á dögunum.
Hjalti Jón, Sindri og Katrín Helga eru í hljómsveitinni Kriki sem gaf út sitt fyrsta lag á dögunum. Mynd/KristínPétursdóttir
„Þetta er fyrsta lagið sem við gefum út og var samið í haust. Það er kannski klisja en þetta er ástarlag,“ segir Katrín Helga Andrésdóttir sem margir kannast við úr hljómsveitunum Reykjavíkurdætrum og Hljómsveitt en hún er einnig í hljómsveitinni Kriki ásamt Hjalta Jóni Sverrissyni og Sindra Bergssyni.

Fyrsta lag hljómsveitarinnar, Svefn, kom út nýverið og væntanlegt er myndband sem unnið var í samstarfi við bandaríska kvikmyndagerðarmanninn Nathan Drillot, en hann hefur meðal annars unnið sér það til frægðar að hljóta tilnefningu til Grammy-verðlaunanna.

„Salka Valsdóttir úr Reykjavíkurdætrum og maðurinn hennar leika í myndbandinu sem sýnir margar hliðar ástarsambands. Góðu stundirnar og þegar það eru erfiðleikar. Það er mjög gott að fá svona alvöru par til þess að leika, það myndast alvöru spenna.“

Textann samdi Katrín þegar hún var í ástarsorg. „Þetta er svolítið svona skammdegislag, um svefn og andstæðurnar þegar maður tímir ekki að sofa af því það er svo gaman að vera vakandi og þegar maður getur ekki vakað af því maður höndlar ekki daginn og vill bara sofa og hverfa inn í einhvern veruleikaflótta.“

Að sögn Katrínar fjalla flest lög Kriki um ástarsorg. „Það er svolítið þemað hjá okkur, mikið sjálfsvorkunnarþema og vonleysi,“ segir hún hlæjandi og bætir við að öll lögin sem spiluð verði í kvöld fjalli um ástarsorg.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21.00 á skemmtistaðnum Húrra og er miðaverð 1.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×