Álftanes - Tindastóll 78-137 | Metin slegin í stórsigri Stólanna Magnús Sigurjón Olsen Guðmundsson skrifar 12. desember 2025 20:50 Ivan Gavrilovic setti niður flautuþrist í lok fyrri hálfleiks og kom Tindastóli í 73-53. vísir/Anton Lið Álftaness mætti Tindastóli í fjörugum og sögulegum leik í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 137-78, eða 59 stiga munur, og úrslitin söguleg fyrir margar sakir. Hvert metið á fætur öðru var slegið. Stærsti útisigur í sögunni, stærsti sigurinn í efstu deild, útilið hefur aldrei skorað fleiri stig og aldrei hefur lið skorað fleiri stig í efstu deild. Tindastóll sló mörg met með risasigri sínum gegn Álftanesi í kvöld.Sýn Sport/Óskar Ófeigur Álftir fella flugfjaðrir síðsumars, eru þá ófleygar um tíma og er þá sagt að þær séu „í sárum“. Það á vel við því Álftnesingar mættu særðir til leiks eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð. Þjálfari liðsins Kjartan Atli sagði aðspurður fyrir leik að andinn í hans mönnum væri góður. „Það er góður andi í okkur. Við erum búnir að eiga góða æfingaviku. Stólarnir eru frábært lið en eru að gera vel á öllum vígstöðum“. Hann sagðist bera virðingu fyrir Tindastól, liðið væri fullt af sterkum vopnum og sínir menn þyrftu að hafa mjög margt í huga. En það þyrftu gestirnir líka að gera því Kjartan bæri traust til sinna manna. Gestirnir frá Skagafirði mættu fullir sjálfstrausti með byr í seglum eftir sigur í deildinni í síðustu umferð. Þeir skelltu sér svo í víking til Eistlands þar sem þeir rúlluðu yfir heimamenn í Keila. Það var því spurning fyrir leik hvort ferðaþreyta myndi sitja í gestunum. Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls var hvergi banginn fyrir leik og sagðist aðspurður enga þreytu sækja að sínu liði. Hann sagði lið heimamanna vera ógnar sterkt og sparaði ekki hrósið í garð Hauks Helga Pálssonar. „Hann er einfaldlega einn besti leikmaður í deildinni á góðum degi og við verðum að stöðva hann.“ Davis Geks í halla að íhuga sína kosti. Hann skoraði tuttugu stig í kvöld.vísir/Anton Leikurinn hófst með látum. Gestirnir úr Skagafirðinum settu í fluggírinn strax á fyrstu mínútunum. Skagfirska vopnabúrið blés í herlúðra og komast strax yfir 10-0. Heimamenn svöruðu og fór Haukur Helgi Pálsson fyrir sínum mönnum. Álftnesingar minnkuðu muninn og jöfnuðu í 15-15. Liðin skiptust á að skora og við endalok fyrsta fjórðungs var staðan 26-33. Í öðrum leikhluta mátti sjá borðtennisbrag á liðunum í fyrstu. Þau skiptust á að skora og var hraðinn mikill. Ekkert fór fyrir varnarleik hvorugs liðsins og mikið mæddi á Hauki hjá Álftanesi meðan leikmenn Tindastóls rúlluðu meira á breidd liðsins. Skagfirðingarnir voru hungraðari og slitu sig frá Álftnesingum. Staðan í hálfleik 53-73. Í seinni hálfleik hélt varnarleikur Álftaness áfram að vera í feluleik og ekkert gekk hjá þeim í sókninni. Tindastóll hélt áfram að refsa og refsa og sýndi Basile snilli sína á parketinu. Á meðan virkuðu heimamenn stressaðir og var erfitt fyrir Hauk að vera einn í baráttunni. Ade Taqqiyy Henry Murkey svaraði kallinu og kom sér betur inn í leikinn. Dedrick Basile var með 16 stig og 9 stoðsendingar í kvöld.vísir/Anton En ekkert gat stöðvað Tindastól sem var kominn með allt stóðið úr Laufskálarétt og það voru allir hestarnir komnir á skeið. Í lok þriðja leikhluta var staðan orðin 67-98. Það var eins og heimamenn væru búnir að henda inn handklæðinu. En ef einhver hélt að Tindastóll ætlaði sér að slaka á þá skjátlaðist viðkomandi. Þeir voru hvergi hættir og gáfu bara í. Á tímabili var eins og þeir væru mættir á skotæfingu því þeir skutu og skutu og hver einasti bolti lak niður. Bilið á milli liðanna hélt áfram að breikka og þegar lokaflautan gall þá var staðan 78-137. Fjórða tapið í röð hjá Álftnesingum og þurfa þeir að kafa djúpt í ígrundunina. Arnar Guðjónsson fékk nánast fullkomna frammistöðu frá sínu liði í kvöld.vísir/Anton Atvik leiksins Hvað er hægt að segja um svona leik. Að velja eitt atvik væri dónaskapur. Atvik leiksins var einfaldlega baráttuvilji Tindastóls sem sleit sig frá Álftanesi og gaf þeim ekkert færi á að komast aftur inn í leikinn. Stjörnur og skúrkar Hjá Tindastól var Basile fimur eins og ballerína. Hann mataði sína menn og gaf þeim nóg að borða. Taiwo Badmus var á eldi og skoraði 29 stig og það gerði Ivan Gavrilovic líka og reif að auki niður 13 fráköst. Skúrkar leiksins er varnarleikur Álftaness. Það er ekki boðlegt og alls ekki líklegt til árangur að fá á sig 137 stig. Dómararnir Tríóið átti fínasta leik. Þeir hafa án efa verið með þreyttir á hlaupunum enda var hraðinn mikill og stigaskorun líka. Ekkert yfir þeim að klaga. Eiga hvíldina skilið. Stemmning og umgjörð Fyrsti heimaleikurinn á Álftanesi í langan tíma. Frábær umgjörð og allt til fyrirmyndar. Áhorfendur áttu meira skilið. Viðtöl Arnar: Má hætta að spyrja okkur út í þreytu Arnar Guðjónsson var að vonum kampakátur með sína menn í lok leiks. Aðspurður sagði hann: „Svona eru íþróttir. Við vorum flengdir í Grindavík fyrir tveimur vikum. Grindavík voru flengdir í Garðabænum fyrir viku. Svona er þetta bara. Stundum ertu on og stundum ekki“. Undirritaður sagðist hafa spurt hann fyrir leik hvort það væri þreyta í hans mönnum og stakk út með því að ekki hefði sést neitt til slíks. Arnar stoppaði spyrjanda og sagði:„Við erum alltaf spurðir hvort við séum þreyttir. Við erum ekki þreyttir. Við erum venjulega að spila á tíu leikmönnum og enginn spilaði yfir 30 mínútur“. Arnar sagði liðið hans vera í skemmtilegasta prógramminu af öllum liðum á landinu og hjá þeim væri bara gleði í þessu og ógeðslega gaman. „Það má alveg hætta að spyrja okkur út í þreytu“. Framundan sagði Arnar að væri bara meiri bolti og meiri gleði. Mistök að ná ekki Kjartani í viðtal Undirritaður gerði mistök í lok leiks og náði ekki í skottið á Kjartani Atla þjálfara heimamanna. Ég fór að ókyrrast og fór að leita að honum en fann hann ekki. Frétti svo síðar að hann hefði komið á parketið en þá var ég farinn. Það er ekki við hann að sakast heldur skrifast þessi klaufaskapur alfarið á mig. Bið alla afsökunar á þessu. Bónus-deild karla UMF Álftanes Tindastóll
Lið Álftaness mætti Tindastóli í fjörugum og sögulegum leik í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 137-78, eða 59 stiga munur, og úrslitin söguleg fyrir margar sakir. Hvert metið á fætur öðru var slegið. Stærsti útisigur í sögunni, stærsti sigurinn í efstu deild, útilið hefur aldrei skorað fleiri stig og aldrei hefur lið skorað fleiri stig í efstu deild. Tindastóll sló mörg met með risasigri sínum gegn Álftanesi í kvöld.Sýn Sport/Óskar Ófeigur Álftir fella flugfjaðrir síðsumars, eru þá ófleygar um tíma og er þá sagt að þær séu „í sárum“. Það á vel við því Álftnesingar mættu særðir til leiks eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð. Þjálfari liðsins Kjartan Atli sagði aðspurður fyrir leik að andinn í hans mönnum væri góður. „Það er góður andi í okkur. Við erum búnir að eiga góða æfingaviku. Stólarnir eru frábært lið en eru að gera vel á öllum vígstöðum“. Hann sagðist bera virðingu fyrir Tindastól, liðið væri fullt af sterkum vopnum og sínir menn þyrftu að hafa mjög margt í huga. En það þyrftu gestirnir líka að gera því Kjartan bæri traust til sinna manna. Gestirnir frá Skagafirði mættu fullir sjálfstrausti með byr í seglum eftir sigur í deildinni í síðustu umferð. Þeir skelltu sér svo í víking til Eistlands þar sem þeir rúlluðu yfir heimamenn í Keila. Það var því spurning fyrir leik hvort ferðaþreyta myndi sitja í gestunum. Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls var hvergi banginn fyrir leik og sagðist aðspurður enga þreytu sækja að sínu liði. Hann sagði lið heimamanna vera ógnar sterkt og sparaði ekki hrósið í garð Hauks Helga Pálssonar. „Hann er einfaldlega einn besti leikmaður í deildinni á góðum degi og við verðum að stöðva hann.“ Davis Geks í halla að íhuga sína kosti. Hann skoraði tuttugu stig í kvöld.vísir/Anton Leikurinn hófst með látum. Gestirnir úr Skagafirðinum settu í fluggírinn strax á fyrstu mínútunum. Skagfirska vopnabúrið blés í herlúðra og komast strax yfir 10-0. Heimamenn svöruðu og fór Haukur Helgi Pálsson fyrir sínum mönnum. Álftnesingar minnkuðu muninn og jöfnuðu í 15-15. Liðin skiptust á að skora og við endalok fyrsta fjórðungs var staðan 26-33. Í öðrum leikhluta mátti sjá borðtennisbrag á liðunum í fyrstu. Þau skiptust á að skora og var hraðinn mikill. Ekkert fór fyrir varnarleik hvorugs liðsins og mikið mæddi á Hauki hjá Álftanesi meðan leikmenn Tindastóls rúlluðu meira á breidd liðsins. Skagfirðingarnir voru hungraðari og slitu sig frá Álftnesingum. Staðan í hálfleik 53-73. Í seinni hálfleik hélt varnarleikur Álftaness áfram að vera í feluleik og ekkert gekk hjá þeim í sókninni. Tindastóll hélt áfram að refsa og refsa og sýndi Basile snilli sína á parketinu. Á meðan virkuðu heimamenn stressaðir og var erfitt fyrir Hauk að vera einn í baráttunni. Ade Taqqiyy Henry Murkey svaraði kallinu og kom sér betur inn í leikinn. Dedrick Basile var með 16 stig og 9 stoðsendingar í kvöld.vísir/Anton En ekkert gat stöðvað Tindastól sem var kominn með allt stóðið úr Laufskálarétt og það voru allir hestarnir komnir á skeið. Í lok þriðja leikhluta var staðan orðin 67-98. Það var eins og heimamenn væru búnir að henda inn handklæðinu. En ef einhver hélt að Tindastóll ætlaði sér að slaka á þá skjátlaðist viðkomandi. Þeir voru hvergi hættir og gáfu bara í. Á tímabili var eins og þeir væru mættir á skotæfingu því þeir skutu og skutu og hver einasti bolti lak niður. Bilið á milli liðanna hélt áfram að breikka og þegar lokaflautan gall þá var staðan 78-137. Fjórða tapið í röð hjá Álftnesingum og þurfa þeir að kafa djúpt í ígrundunina. Arnar Guðjónsson fékk nánast fullkomna frammistöðu frá sínu liði í kvöld.vísir/Anton Atvik leiksins Hvað er hægt að segja um svona leik. Að velja eitt atvik væri dónaskapur. Atvik leiksins var einfaldlega baráttuvilji Tindastóls sem sleit sig frá Álftanesi og gaf þeim ekkert færi á að komast aftur inn í leikinn. Stjörnur og skúrkar Hjá Tindastól var Basile fimur eins og ballerína. Hann mataði sína menn og gaf þeim nóg að borða. Taiwo Badmus var á eldi og skoraði 29 stig og það gerði Ivan Gavrilovic líka og reif að auki niður 13 fráköst. Skúrkar leiksins er varnarleikur Álftaness. Það er ekki boðlegt og alls ekki líklegt til árangur að fá á sig 137 stig. Dómararnir Tríóið átti fínasta leik. Þeir hafa án efa verið með þreyttir á hlaupunum enda var hraðinn mikill og stigaskorun líka. Ekkert yfir þeim að klaga. Eiga hvíldina skilið. Stemmning og umgjörð Fyrsti heimaleikurinn á Álftanesi í langan tíma. Frábær umgjörð og allt til fyrirmyndar. Áhorfendur áttu meira skilið. Viðtöl Arnar: Má hætta að spyrja okkur út í þreytu Arnar Guðjónsson var að vonum kampakátur með sína menn í lok leiks. Aðspurður sagði hann: „Svona eru íþróttir. Við vorum flengdir í Grindavík fyrir tveimur vikum. Grindavík voru flengdir í Garðabænum fyrir viku. Svona er þetta bara. Stundum ertu on og stundum ekki“. Undirritaður sagðist hafa spurt hann fyrir leik hvort það væri þreyta í hans mönnum og stakk út með því að ekki hefði sést neitt til slíks. Arnar stoppaði spyrjanda og sagði:„Við erum alltaf spurðir hvort við séum þreyttir. Við erum ekki þreyttir. Við erum venjulega að spila á tíu leikmönnum og enginn spilaði yfir 30 mínútur“. Arnar sagði liðið hans vera í skemmtilegasta prógramminu af öllum liðum á landinu og hjá þeim væri bara gleði í þessu og ógeðslega gaman. „Það má alveg hætta að spyrja okkur út í þreytu“. Framundan sagði Arnar að væri bara meiri bolti og meiri gleði. Mistök að ná ekki Kjartani í viðtal Undirritaður gerði mistök í lok leiks og náði ekki í skottið á Kjartani Atla þjálfara heimamanna. Ég fór að ókyrrast og fór að leita að honum en fann hann ekki. Frétti svo síðar að hann hefði komið á parketið en þá var ég farinn. Það er ekki við hann að sakast heldur skrifast þessi klaufaskapur alfarið á mig. Bið alla afsökunar á þessu.