Vardy, sem hefur farið á kostum í deildinni í vetur og skorað tólf mörk í tólf leikjum, ætlaði að gifta sig í júní á næsta ári en þá hefst einmitt Evrópukeppnin í Frakklandi.
Sjá einnig:Vardy getur bætt met Nistelrooy á Old Trafford
Framherjinn vonast eftir því að fara með til Frakklands, en Vardy, sem spilaði í utandeildinni fyrir þremur árum síðan, er búinn að spila þrjá landsleiki undir stjórn Roy Hodgson síðustu mánuði.

Hann er ekki eini fótboltamaðurinn sem ákvað að breyta brúðkaupsdeginum sínum vegna Evrópumótsins. Ögmundur Kristinsson, markvörður íslenska landsliðsins, gerði það sama.
Fréttatíminn greindi frá því í lok september að Ögmundur mun giftast unnustu sinni Söndru Steinarsdóttur í desember en upphaflega stóð til að þau myndu ganga í það heilaga í júlí á næsta ári.
„Það er samt svolítið síðan að möguleikinn væri fyrir hendi að liðið mundi komast á mótið svo við vorum alltaf með plan B. Þetta er besta mögulega ástæðan til þess að breyta brúðkaupsdeginum. Meira svona lán í óláni,“ sagði Ögmundur Kristinsson.