Enski boltinn

Rodgers segir að Liverpool geti náð öðru sætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool vann sinn fimmta deildarleik í röð í gær.
Liverpool vann sinn fimmta deildarleik í röð í gær. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekki aðeins sett stefnuna á Meistaradeildarsætið því hann vill náð öðru sætinu af Manchester City á lokaspretti ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool vann 1-0 útisigur á Swansea í gær en þetta var fimmti deildarsigur liðsins í röð. Liverpool-liðið er nú í fimmta sæti deildarinnar þegar níu umferðir eru eftir en þó bara fórum stigum á eftir Manchester City sem situr í öðru sætinu.

„Úrslitin hjá Manchester City um helgina gefa okkur tækifæri á því að ná öðru sætinu," sagði Brendan Rodgers við BBC.

„Við höfum nú mikið sjálfstraust og það gengur mjög vel. Við ætlum að fara með það inn í hvern leik og sjá síðan til hvert það skilar okkur," sagði Rodgers en næsti leikur er heimaleikur við erkifjendurna í Manchester United á Anfield á sunnudaginn kemur.

„Við höfum náð að koma okkur í góða stöðu. Það er samt mikið verk enn eftir óunnið og við þurfum að ná góðri endurheimt og gera okkur klára fyrir helgina," sagði Rodgers.

„Markmiðið er að enda eins hátt og við getum. Það eru allir að tala um þetta fjórða sæti en hjá mér hefur ekkert breyst. Við ætlum að gera eins vel og við getum," sagði Brendan Rodgers.

„Okkur hefur tekist að klóra okkur hægt og rólega aftur inn í baráttuna. Við vissum að það myndi taka sinn tíma eftir að við drógumst svona langt aftur úr. Það er samt aðdáunarvert að vera komnir aftur inn. Það er mikið verk eftir en við erum á réttri leið," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×