Lífið

Safnar persónulegum hlutum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Uppáhaldsstaðurinn
Uppáhaldsstaðurinn Vísir/Vilhelm
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, teiknari, tónlistarkona og meistaranemi í ritlist, er búsett ásamt hljómsveitarfélaga sínum úr FM Belfast og kærasta, Árna Rúnari Hlöðverssyni, auk tveggja og hálfs árs gamals sonar þeirra, Fróða, í bjartri, fallegri og rúmgóðri íbúð.

Það verður gaman að sjá hvernig það verður að búa hérna í sumar, maður fær nú þegar mikla birtu í augun,“ segir Lóa og hlær þegar sólin skín óhindrað inn um stóra gluggana í stofunni en fjölskyldan er tiltölulega nýflutt úr miðbænum.



Lóa á stórt safn af fígúrum sem hún hefur safnað frá barnsaldri og heimilið er fullt af ýmiss konar hlutum sem Lóa hefur sankað að sér á ferðalögum með hljómsveitinni FM Belfast.

„Bara eitthvað sem er fínt og eitthvað persónulegt sem tengist einhverju,“ segir Lóa þegar hún er spurð að því hvernig hún velji helst hluti inn á heimilið áður en hún tekur til við að sýna okkur sína fimm uppáhaldshluti.

Uppáhaldsstaður Lóu er við borðstofuborðið og ástæðurnar eru einfaldar. "Af því það er rosalega bjart og hér er borð,“ segir hún og hlær.

Á skenknum fyrir aftan hana má sjá glitta í páskaskraut. "Ég var að páskaskreyta í fyrsta skipti á ævi minni, ég var að hugsa að ég vildi að barnið mitt myndi eiga minningar um páskaskraut, alveg grillað,“ segir hún og skellir upp úr.

Lambagrasið Hans

Lóa deilir vinnustofu í miðbænum með myndlistarmönnunum Loja Höskuldssyni, Helgu Páleyju Friðjónsdóttur og Ragnheiði Maísól Sturludóttur og er verkið Lambagrasið hans verk eftir Loja og vísun í samnefnt verk Eggerts Péturssonar.

Hluti af safninu

Fígúran er úr málverki eftir Hieronymus Bosch og færðu foreldrar Lóu henni hana að gjöf.

„Það er ekki öllum sem tekst að kaupa kalla sem ég fíla, þetta er svolítið svona sérviskusafn.“ 

Frá Mömmu

Mamma Lóu prjónaði teppið handa barnabarninu og er það í miklu uppáhaldi hjá mæðginunum.

„Mér finnst það ótrúlega flott, litirnir og munstrið og hann er alveg ennþá að nota það.“

Símahulstur

 „Litla frænka mín teiknaði þessa mynd af símahulstrinu sínu, mér finnst hún svo ótrúlega flott,“ segir hún hlæjandi og bætir við: „Hún er tólf ára, mér finnst þetta alveg sjúklega fínt.“

Heimur sem snýst

Hálsmenið fékk Lóa að gjöf frá Árna og er það einn af fáum skartgripum sem hún hefur fengið að gjöf frá fermingu.

„Við erum búin að ferðast mikið saman og þá passar það svo vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×