Fótbolti

11 ára drengur með Downs-heilkenni skoraði mark mánaðarins í Skotlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Jay Beatty skoraði besta mark janúarmánaðar í skosku úrvalsdeildinni en hann hlaut alls 97 prósent atkvæða í opnu kjöri á netinu.

Beatty er ellefu ára stuðningsmaður Celtic og hann er með Downs-heilkenni. Markið skoraði hann af vítapunktinum í hálfleik er Celtic vann Hamilton Academical.

Beatty er blóðheitur stuðningsmaður Celtic og var sérstakur gestur á leiknum. Fyrir leik hélt hann ræðu fyrir leikmenn þar sem hann skammaði þá fyrir frammistöðuna í síðustu leikjum á undan.

Gríski framherjinn Georgios Samaras tilkynnti að Beatty hafi borið sigur úr býtum í kosningunni í myndbandi sem var birt á Youtube á má sjá hér fyrir neðan.

Sjálfur vildi Jay velja mark Mikael Lustig sem mark janúarmánaðar, að sögn föður hans.

„Svona er Jay. Hann gerir sér ekki grein fyrir þessu enda kemst ekkert annað að hjá honum en Celtic,“ sagði hann.

„Hann leikur sér ekki með dót eða neitt annað. Hann horfir bara á Celtic, les Celtic-bækur og skoðar Celtic-tímarit. Hann hlustar á Celtic-lög upp að því marki að kona mín og dóttir eru að verða brjáluð.“

„Mér er nokkuð sama en þetta er kannski orðið of mikið þegar hann er búinn að horfa á sama DVD-diskinn tíu klukktíma í röð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×