Erlent

Nítján látnir eftir árás á safni í miðborg Túnisborgar

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill viðbúnaður var í miðborg Túnis.
Mikill viðbúnaður var í miðborg Túnis. Vísir/AFP
Nítján létust, þar af sautján erlendir ferðamenn og tveir túnískir ríkisborgarar, í árás tveggja manna á safn í miðborg Túnisborgar. Á þriðja tug særðust í árásinni.

Í frétt BBC kemur fram árásarmennirnir hafi tekið fjölda fólks í gíslingu, en árásin var gerð á Bardo-safninu sem er við hlið þinghússins í miðborg Túnisborgar.

Umsátursástand myndaðist við safnið. Túníski fjölmiðillinn Shems FM hefur greint frá því að tveir árásarmannanna séu látnir og aðgerðum lögreglu sé lokið. Einn lögreglumaður lést í áhlaupi lögreglu, um tveimur tímum eftir að tilkynning barst um árásina.

Habib Essid, forsætisráðherra Túnis, segir að ferðamennirnir hafi meðal annars verið ítalskir, spænskir, pólskir og þýskir. Árásarmennirnir hafi verið í herklæðum þegar þeir réðust til inngöngu.

Túnískur þingmaður segir að öll þingstörf hafi verið stöðvuð í kjölfar árásarinnar. Talsmaður túnískra stjórnvalda talar um árásina sem hryðjuverkaárás.

Áhyggjur af öryggi landsins hafa farið vaxandi í kjölfar versnandi ástands í nágrannaríkinu Líbíu.

Fjöldi túnískra ríkisborgara hefur einnig haldið af landi brott til að ganga til liðs við ISIS í Sýrlandi og Írak og er óttast að margir þeirra snúi síðar aftur heim til að fremja hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×