Johan Cruyff hefur ákveðið að hætta að vinna fyrir hollenska félagið Ajax en hann hefur starfað sem ráðgjafi hjá félaginu undanfarin ár.
Það hefur verið valdatafl í gangi innan raða Ajax og Johan Cruyff er greinilega það ósáttur með þróun mála að hann hefur ákveðið að stíga til hliðar.
Cruyff notaði pistil sinn í hollenska blaðinu De Telegraaf til að tilkynna löndum sínum það að hann sé hættur hjá Ajax.
„Ég er hættur. Ég hef tekið eftir því undanfarin ár að mín sýn á framtíð félagsins er ekki að fá hljómgrunn," skrifaði Johan Cruyff.
Það eru því breytingar í gangi hjá Ajax en í síðustu viku var Wim Jonk sagt upp sem yfirmanni yngri flokka starfs félagsins.
Það er margt í gangi hjá hinum 68 ára gamla Johan Cruyff en hann berst nú við lungakrabbamein.
Johan Cruyff er besti leikmaðurinn í sögu Ajax en hann vann átta Hollandsmeistaratitla og þrjá Evróputitla með Ajax á sínum tíma.
Johan Cruyff skoraði 203 mörk í 274 deildarleikjum með Ajax en hann fór til Barcelona árið 1973 þar sem hann spilaði til ársins 1978.
Hann gerði líka flotta hluti sem þjálfari liðsins á árunum 1985 til 1988 og gerði Ajax meðal annars að Evrópumeisturum bikarhafa 1987.

