Enski boltinn

Smalling: Van Gaal hefur hjálpað mér að bæta mig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Smalling hefur byrjað tímabilið af miklum krafti.
Smalling hefur byrjað tímabilið af miklum krafti. vísir/getty
Chris Smalling, miðvörður Manchester United, segir að Louis van Gaal, knattspyrnustjóri liðsins, eigi stóran þátt í þeim framförum sem hann hefur sýnt á þessu tímabili.

Smalling hefur byrjað tímabilið mjög vel og átt hvað stærstan þátt í því að United hefur haldið hreinu í þremur af fimm deildarleikjum sínum.

„Van Gaal hefur hjálpað mér að bæta mig. Það á reyndar við um alla þjálfara sem ég hef unnið með en sérstaklega Van Gaal,“ sagði Smalling sem kom til United frá Fulham árið 2010.

„Við leggjum hart að okkur á æfingum hvað taktíska þáttinn varðar, við spilum oft 11 á móti 11 á æfingum svo við vitum nákvæmlega hvar við eigum að staðsetja okkur á vellinum og hvert hlutverk okkar er.

„Þessar endurteknu æfingar hafa hjálpað mér að bæta minn leik og það sama má segja um fleiri leikmenn,“ sagði Smalling ennfremur.

Hann segir að allir leikmenn United þekki sín hlutverk og viti nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim.

„Það liggur alveg ljóst fyrir hvað við eigum að gera í leikjum. Við höfum byrjað þetta tímabil miklu betur en síðasta tímabil og það eru framfarir á leik liðsins,“ sagði Smalling sem verður væntanlega í eldlínunni þegar United sækir Southampton heim í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Leikur Southampton og Manchester United hefst klukkan 15:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×