Innlent

Bankastjóri Arion blandaði sér í Ísraelsmálið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka. vísir
Bankastjóri Arion banka, Höskuldur Ólafsson, sendi Degi B. Eggertssyni borgarstjóra bréf um liðna helgi þar sem hann sagðist hafa haft verður af því að áform Reykjavíkurborgar um að sniðganga ísraelskar vörur gætu haft áhrif á byggingu hótels við Hörpu. Frá þessu er greint á RÚV.

Segir þar að bankastjórinn hafi heyrt af því að einn eigenda byggingareitsins þar sem hótelið á að rísa hefði áhyggjur af samþykkt borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur. Hann hafi því sent borgarstjóra og stjórnarráðinu bréf vegna málsins.

Tillaga um sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum var samþykkt á fundi borgarstjórnar fyrir viku. Samþykktin hefur vakið mikil viðbrögð og verður aukaborgarstjórnarfundur haldinn í dag vegna málsins. Fyrir fundinum liggja tvær samhljóða tillögur, önnur frá meirihlutanum og hin frá minnihlutanum, um að draga tillöguna um sniðgöngu til baka.

Frá því var greint í DV í dag að fjármögnun Hörpuhótelsins væri í uppnámi vegna samþykktar borgarinnar. Tilteknir fjárfestar hefðu lýst yfir óánægju sinni með samþykktina en ekki kom fram um hvaða fjárfesta væri að ræða. Richard Friedman, sem fer fyrir fjárfestum hótelsins, segir hins vegar að áform um byggingu þess séu óbreytt.

RÚV kveðst hafa heimildir fyrir því að það hafi ekki verið gyðingar sem koma að byggingu hótelsins sem hafi verið óánægðir með samþykkt borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur. Það hafi verið Íslendingurinn Eggert Dagbjartsson sem hafi haft áhyggjur af viðbrögðum þeirra en Eggert er fjárfestir og kemur að verkefninu sem slíkur.

Hvorki náðist í Eggert Dagbjartsson við vinnslu fréttarinnar né Dag B. Eggertsson. Borgarstjóri segir þó í samtali við RÚV að bréf bankastjóra Arion hafi ekki „skipt máli“ þegar hann tilkynnti um þá ákvörðun sína á sunnudag að draga tillöguna til baka.


Tengdar fréttir

Reykjavíkurborg mun sniðganga varning frá Ísrael

Eitt aðalmál borgarstjórnarfundar Reykjavíkur í gær var síðasta tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarstjórn um að Reykjavík sniðgangi vörur frá Ísrael á meðan hernám Ísraela á landi Palestínumanna varir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×