Innlent

Áfram deilt um einkavæðingu: Áslaug spyr hvort borgarstjóri sé búinn að gefast upp

Bjarki Ármannsson skrifar
Borgarstjóri er ósammála þeim Áslaugu og Ásdísi Höllu, sem tala fyrir auknum einkarekstri í heilbrigðismálum.
Borgarstjóri er ósammála þeim Áslaugu og Ásdísi Höllu, sem tala fyrir auknum einkarekstri í heilbrigðismálum. Vísir
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ítrekar í nýrri skoðanagrein sinni á Vísi þá skoðun sína að leita þurfi nýrra leiða til að ná betri árangri og meiri hagkvæmni í velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. Hún spyr hvort Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem gagnrýndi ummæli Áslaugar um aukna einkavæðingu í þjónustunni fyrir helgi, sé búinn að „gefast upp“ frekar en að taka nýrri hugmyndafræði vel.

Áslaug ræddi hugmyndir sínar um einkavæðingu í kerfinu í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins en í kjölfar birtingu þess hélt Dagur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vildi „grundvallarbreytingu á samfélagsgerðinni þar sem efni ráði því hverjir fái fyrsta flokks heilbrigðis- og velferðarþjónustu.“ Áslaug segir það af og frá að hugmyndir flokksins gangi út á að spara með því að takmarka velferðarþjónustuna.

Áslaug segir af og frá að hún vilji draga úr þjónustu til borgarbúa.Vísir/Stefán
„Við viljum þvert á móti finna lausnir til að fá meira fjármagn til velferðarmála almennt, og auka skilvirkni án þess að fólk greiði meira fyrir grunnþjónustuna en það gerir í dag,“ skrifar Áslaug. „Enginn er að tala um að draga úr þjónustu. Hins vegar er hægt að auðvelda fólki að sækja sér viðbótarþjónustu. Þannig má draga úr álagi á núverandi velferðarkerfi og stytta bið.“

Sjá einnig: Eigum við ekki að gera betur?

Hún bendir á að góð reynsla sé af sjálfstæðum rekstri grunnþjónustu annars staðar á Norðurlöndunum og að það sé ein ástæða þess að norræna velferðarkerfið sé það skilvirkasta í heimi.

„Reynsla nágrannalandanna sýnir að einkaaðilar sýna alls ekki síðri þjónustulund en opinberir enda eiga þeir allt undir því að reksturinn fái hljómgrunn hjá notendum,“ skrifar hún. „Sveigjanleiki og skilvirkni er meiri í einkarekstri en opinberum. Staðreyndin er einnig sú að nýsköpun og þróun gengur mun hraðar fyrir sig hjá einkaaðilum.“

Ásdís Halla Bragadóttir er talsmaður meira valfrelsis í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.Vísir/Pjetur
Segir orð og athafnir Dags ekki haldast í hendur

Í Facebook-færslu Dags um málið síðastliðinn föstudag líkti hann hugmyndum Áslaugar við sýn Ásdísar Höllu Bragadóttur, sem vakið hefur mikla athygli fyrir að mæla fyrir aukinni samkeppni í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi.

Ásdís segir á Facebook-síðu sinni að hún sé sammála borgarstjóra um það að örlög fólks megi aldrei ráðast af efnum þess. Hún segir athafnir hans þó ekki haldast í hendur við orð hans í þessum efnum.

„Ef borgarstjórinn er þeirrar skoðunar að örlög megi aldrei ráðst af efnum hvers vegna hlustar hann þá ekki á hugmyndir Áslaugar sem geta falið í sér betri velferðarþjónustu þar sem grunnþjónustan er greidd af borginni en íbúarnir sjálfir, líka hinir efnaminni, fá að velja hvaðan hún kemur?“ skrifar Ásdís Halla.

Ég er svo innilega sammála yfirlýsingu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hér á Facebook í dag um að efni eigi ekki að rá...

Posted by Ásdís Halla Bragadóttir on 25. september 2015

Tengdar fréttir

Föstudagsviðtalið: Dagur er búinn að koma sér út í horn

Það er óábyrgt að fara á svig við lögin. Þó að málstaðurinn sé góður. Að gera það þegar fólki hentar af því það telur sig vera með góðan málstað, það ryður bara brautina fyrir því að þegar aðrir komast til valda þá geri þeir slíkt hið sama,“ segir Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Í vikunni hefur fátt annað verið rætt en sniðganga borgarstjórnar við ísraelskar vörur sem var svo dregin til baka. Boðað var til borgarstjórnarfundar á miðvikudag þar sem Áslaug nefndi nasista í samhengi við aðgerðirnar. Hún baðst síðar afsökunar á framsetningu máls síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×