Innlent

Gagnrýnir hugmyndir Áslaugar: Dagur segir efni ekki eiga að ráða örlögum fólks

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Borgarstjóri gagnrýnir ummæli Áslaugar Friðriksdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, á Vísi í dag, þar sem hún segir að einkavæða þurfi í velferðarkerfinu.
Borgarstjóri gagnrýnir ummæli Áslaugar Friðriksdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, á Vísi í dag, þar sem hún segir að einkavæða þurfi í velferðarkerfinu. VÍSIR/STEFÁN
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki bara að velta fyrir sér hagkvæmni útboða í völdum tilvikum, einsog margir gætu haldið, heldur grundvallarbreytingu á samfélagsgerðinni þar sem efni ráði því hverjir fái fyrsta flokks heilbrigðis- og velferðarþjónustu en hinir fái einhvern nýjan grunn, sem á að spara miklar fjárhæðir og hefur ekki verið kynntur.

Áslaug vill einkavæða

Vísar hann í viðtal við Áslaugu Friðriksdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á Vísi í dag, þar sem hún segir að einkavæða þurfi í velferðarkerfinu til að mæta þeim þörfum sem fyrir eru og munu skapast í framtíðinni.

Áslaug segir öldruðum fjölga og þjónustu í borginni sé ábótavant. Hún vill ráðast í róttækar breytingar.vísir/stefán
„Okkur sárvantar meira fé og kerfið sem við erum að reka, það mun ekki duga til að sinna þörfum þessa hóps eftir nokkur ár. Það er það sem blasir við og er búið að blasa við okkur í mörg ár. Hins vegar hefur lítið verið gert og virðist engin vilji eða metnaður til að skoða þetta í grunninn og greina hvernig við gætum farið í að mæta þessum kröfum með bættu kerfi,“ segir hún í viðtalinu.

„Bjóðum út verkefnið. Þannig munum við fá meiri fjölbreytni og þau fyrirtæki sem þá myndu vonandi líta dagsins ljós, þau eru betur til þess fallin að fara í þá nýsköpun sem við þurfum í þessum geira.“

Minnir á ummæli Ásdísar Höllu

Dagur segir að það verði að gera þá kröfu til flokksins að hann kynni þessar hugmyndir margfalt betur og gefi heiðarlega lýsingu á því hverjar verði afleiðingarnar fyrir einstaklinga og samfélag. Líkir hann hugmyndunum við umdeild ummæli Ásdísar Höllu Bragadóttur, forstjóra Sinnum, um mismunandi pakka í heilbrigðiskerfinu.

„[Hún] boðaði svipaða sýn á ársfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir um tveimur árum og horfði til Albaníu þar sem hægt væri að kaupa brons, silfur eða gullpakka þegar kona kæmi inn á spítala til fæðingar (ég er ekki að skálda þetta - hennar dæmi),“ segir hann. 

„Albanía er eitt versta heilbrigðiskerfi Evrópu þar sem einungis ríkasta brot samfélagsins hefur ráð á því sem við teljum eðlilega (fyrsta flokks) þjónustu.“

Dagur segir að velferðarsamfélög Norðurlanda byggi á sterkri samhjálp þar sem veitt er þjónusta eftir þörf en greitt er eftir getu. „Þetta á að tryggja jöfn tækifæri og jafnræði þar sem efni ráði ekki örlögum fólks ef það veikist eða þarf aukinn stuðning tímabundið eða til lengdar,“ segir borgarstjórinn.

Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins boðar einkavæðingu velferðarþjónustu borgarinnar á forsíðu Fré...

Posted by Dagur B. Eggertsson on Friday, September 25, 2015

Tengdar fréttir

Föstudagsviðtalið: Dagur er búinn að koma sér út í horn

Það er óábyrgt að fara á svig við lögin. Þó að málstaðurinn sé góður. Að gera það þegar fólki hentar af því það telur sig vera með góðan málstað, það ryður bara brautina fyrir því að þegar aðrir komast til valda þá geri þeir slíkt hið sama,“ segir Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Í vikunni hefur fátt annað verið rætt en sniðganga borgarstjórnar við ísraelskar vörur sem var svo dregin til baka. Boðað var til borgarstjórnarfundar á miðvikudag þar sem Áslaug nefndi nasista í samhengi við aðgerðirnar. Hún baðst síðar afsökunar á framsetningu máls síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×