Enski boltinn

Mason tryggði Tottenham fyrsta sigurinn | Sjáðu markið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ryan Mason skoraði sigurmark Tottenham í 1-0 sigri á Sunderland í ensku úrvalsdeildinni en leiknum á The Stadium of Lights lauk rétt í þessu. Sigurmark Tottenham kom ekki fyrr en undir lok leiksins.

Liðin höfðu ekki enn unnið leik í fyrstu fjórum umferðum tímabilsins en Tottenham hafði gert þrjú jafntefli í röð eftir að hafa tapað gegn Manchester United í fyrstu umferð. Sunderland nældi í tvö jafntefli í röð eftir að hafa fengið skell gegn Norwich og Leicester í upphafi tímabilsins.

Sunderland var hársbreidd frá því að komast yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar fyrrum leikmaður Tottenham, Jermaine Defoe, átti skot í stöngina eftir stungusendingu frá Jermaine Lens. Liðunum gekk illa að skapa sér færi og kom sigurmark leiksins nokkuð óvænt.

Léku leikmenn Tottenham þá glæsilega í gegn um vörn Sunderland með einna snertingar bolta sem endaði á sendingu inn á Ryan Mason sem lagði boltann framhjá Costel Pantilimon í marki Sunderland. Strax í næstu sókn mátti litlu muna að Jack Rodwell jafnaði metin er hann átti skot í slánna af stuttu færi.

Þrátt fyrir ágætis tækifæri tókst hvorugu liði að bæta við marki og lauk leiknum með 1-0 sigri Tottenham sem skaust upp í 12. sæti með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×